Vestri vann í Eyjum

Karlalið Vestra lék í Vestmannaeyjum í dag við lið ÍBV sem hefur þegar tryggt sér sæti í efstu deild á næsta ári. Vestri heldur áfram að gera það gott þetta sumarið og hafði sigur 2:1 með mörkum frá Nacho Gil og Viktor Júlíussyni eftir að Eyjamenn höfðu tekið forystuna.

Þegar ein umferð er eftir af deildinni er Vestri í 6. sæti með 35 stig, jafnmörg og Grótta. Ljóst er að Vestri verður ekki neðar en í 6. sæti. Liðið á möguleika á 5. sætinu og fræðilega möguleika á 4. sætinu, sem Kórdrengir skipa, en þeir eru langsóttir. Til þess að svo færi þyrfti 12 marka sveiflu milli Vestra og Kórdrengja.

Árangur Vestra í sumar er sérlega góður, liðið hefur nú tvö sumar leikið í lengjudeildinni og verið í efri hluta deildarinnar bæði árin. Það vantar ekki mikið til þess að Vestri blandi sér af alvöru í toppbaráttuna næsta sumar.