Uppskrift vikunnar: haustleg humarsúpa

Uppskriftin kemur upprunalega frá Nönnu Rögnvalds.

Matarmikil og góð fiskisúpa fellur alltaf vel í kramið, ekki síst ef hún inniheldur humar og annan skelfisk. Þessi hér er einföld og góð. Það sem helst þarf að hafa í huga þegar svona súpa er gerð er að búa til góðan grunn og smakka sig áfram og setja svo ekki fiskmetið út í fyrr en á síðustu stundu svo að það ofsjóði ekki – fiskur í bitum og skelfiskur þarf ekki nema örfárra mínútna suðu. Þess vegna á svona súpa helst ekki að bíða og ef þess er þörf er best að elda hana og bragðbæta en setja fiskmetið ekki út í. Svo má hita hana ef þarf þegar á að bera hana fram og setja fiskinn þá út í.

Þetta er fisk- og skelfisksúpa og það má nota ýmsar tegundir, t.d. þorsk, steinbít, löngu, ýsu, lúðu eða lax, humar, rækjur, krækling og fleira. Ég man ekki alveg hvaða fisk ég var með, líklega löngu, þorsk og kannski svolítið af laxi, líklega svona 700 g í allt (roð- og beinlaust). Svo var ég með humar í skel, 200-250 g, og 400 g af frosnum kræklingi. Byrjaði á að skera fiskinn í bita – munnbita, sirka – kljúfa humarhalana eftir endilöngu og hreinsa þá.

Fisk- og skelfisksúpa

600-800 g fiskur, blandaður

200-250 g humar í skel

400 g kræklingur, ferskur eða frosinn

2 msk olía

6-8 vorlaukar, saxaðir

250 g gulrætur, saxaðar

2 lárviðarlauf

1 tsk þurrkað timjan

2 l vatn

2 msk fljótandi humarkraftur

2 msk fiskikraftur

400 ml rjómi

1 msk paprikuduft

1½ tsk túrmerik

pipar og salt

Aðferð

Svo hitaði ég 2 msk af olíu í víðum potti, saxaði 6-8 vorlauka og 250 g af gulrótum frekar smátt og lét þetta krauma við meðalhita í nokkrar mínútur án þess að brúnast. Bætti svo 2 lárviðarlaufum og 1 tsk af þurrkuðu timjani í pottinn og síðan 2 msk af fljótandi humarkrafti (Oscar), 2 msk af fiskikrafti og 2 l af vatni. Hitaðu að suðu og láttu malla í um 20 mínútur. Þá hellti ég 400 ml af rjóma út í, ásamt 1 msk af paprikudufti og 1 1/2 tsk af túrmeriki út í og lét malla í nokkrar mínútur. Ég smakkaði súpuna og bragðbætti með ögn meiri humar- og fiskkrafti, ásamt pipar og salti eftir smekk. Setti svo fiskinn og skelfiskinn út í, hitaði að suðu og lét malla í 2-3 mínútur.  Svo er bara að bera súpuna fram með góðu brauði.

Verði ykkur að góðu.

Halla Lúthersdótti

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!