Flateyri

Flateyri stendur við Önundarfjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Þorpið byggðist upp í kringum sjósókn en á síðustu áratugum 19. aldar var þar umtalsverð þilskipaútgerð og mikil hákarlaveiði.

Árið 1889 reisti Norðmaðurinn Hans Ellefsen hvalveiðistöð á Sólbakka við Flateyri. Stöðin var hin stærsta sinnar tegundar við Norður-Atlantshaf og veitti fjölda manns atvinnu. Hún var starfrækt til ársins 1901 er hún brann til kaldra kola. Myndarlegur múrsteinsreykháfur skammt utan við þorpið er eins konar minnisvarði um þessa stöð. Reykháfurinn var reistur skömmu eftir brunann mikla sem fyrsti liður í endurbyggingu stöðvarinnar. Um frekari byggingaframkvæmdir var þó ekki að ræða því Ellefsen gerði eins og aðrir kollegar hans í hvalveiðunum, flutti stöð sína austur á land því þar var mikil veiði á sama tíma og hval var farið að fækka mjög hér vestra.


Flateyri tekur vel á móti gestum. Þegar ekið er inn í bæinn má sjá skipaflota á litlu lóni við veginn. Þar eru til sýnis líkön af allskyns skipum allt frá sjálfum Titanic til íslenskra aflaskipa. Síðan tekur við varnargarðurinn, gríðarmikið mannvirki sem reist var byggðinni til verndar eftir snjóflóðið mannskæða í október 1995. Hægt er að ganga upp á garðinn, njóta útsýnis yfir Önundarfjörðinn og átta sig á staðháttum með aðstoð útsýnisskífu.


Á Flateyri er boðið upp á rafræna leiðsögn þannig að fólk getur gengið um þorpið og notið leiðsagnar af ferðaspilara. Þar eru líka þrjú söfn hvert öðru skemmtilegra. Á því nýjasta, Dellusafninu, er vettvangur fyrir hvers kyns safnara og „dellufólk“ til að sýna ýmis konar muni sem það hefur sankað að sér. Þar hefur m.a. mátt sjá lögregluhúfur úr ýmsum áttum, eldspýtustokka og sígarettupakka frá stríðsárunum, teskeiðar úr öllum heimshornum o.fl. Alþjóðlega brúðusafnið hefur að geyma þjóðbúningadúkkur víða að úr heiminum og í gömlu bókabúðinni, Verzlunin bræðurnir Eyjólfsson, er bæði safn og verslun. Þar er íbúð kaupmannsins varðveitt og gestum til sýnis en einnig er hægt að gera þar kjarakaup í notuðum bókum sem seldar eru eftir vigt, nú eða bara að fá sér brjóstsykur í kramarhúsi uppá gamla mátann.

Á góðviðrisdögum er hvíta ströndin handan fjarðarins paradís fyrir alla fjölskylduna en þar fer fram gríðar vinsæl sandkastalakeppni fyrsta laugardaginn í ágúst á hverju ári. Um allan Önundarfjörð er að finna afar fallegar gönguleiðir við allra hæfi og ekki má gleyma því að fuglalífið í firðinum er afar fjölbreytt og skemmtilegt að skoða. Að útivistinni lokinni er svo fátt betra en að slaka á í hinni notalegu sundlaug þeirra Flateyringa.

Af vefsíðu Markaðsstofu Vestfjarða