Frjálsyndi lýðræðisflokkurinn: hlynntur virkjunum fyrir Vestfirðinga

Bæjarins besta hefur sent oddvitum allra framboðslista í Norðvesturkjördæmi þrjár spurningar um stefnuna í þremur mikilvægum málum Vestfirðinga, fiskeldi, virkjunvatnsafls og vegagerð í Gufudalssveit.

Hér koma svör Sigurlaugar Gísladóttur, oddvita Frjálslynda lýðræðisflokksins.

Varðandi virkjanahugmyndir þá eru það Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun sem eru í nýtingarflokki í Rammaáætlun og svo er það Vatnsfjarðarvirkjun sem Orkubú Vestfjarða hefur áhuga á að láta rannsaka frekar og jafnvel ráðast í.

Hver er afstaða þín og/eða flokksins til þessara virkjunarkosta?

Svör:

Ég er algerlega hlynnt virkjunum á Vestfjörðum og mun styðja þær framkvæmdir svo framarlega að Vestfirðingar séu sjálfir sammála um þá kosti sem í boði eru og að ekki verði gróflega gengið á náttúruna. Að því sögðu þá dreg ég samt mörkin við að aðeins sé virkjað til nota fyrir Vestfirðinga og til atvinnuuppbyggingar á því svæði og eins og sú þörf er á hverjum tíma.

Ég mun aldrei styðja virkjunarframkvæmdir hvar sem það er á landinu ef hugsunin á bak við það  er bara til  að auka  orkumagnið, þar sem ætlunin er að leiða það út með sæstreng. Og ég er algerlega á móti því að skipta upp Landsvirkjum eins og sumir þingmenn eru farnir að gæla við, þó það tengist ekki beint spurningunni.

Vegagerð í Gufudalssveit er hafin og á dögunum var lokið samningum við landeigendur. Málið hefur verið umdeilt og verið nærri 20 ár í deiglunni.

Munt þú eða flokkurinn styðja þetta mál eða leitast við að fara aðra leið?

Svör:

Ég er hlynnt þeirri vegagerð sem er hafin enda löngu tímabær framkvæmd.

En í  þessu málum  þ.e vegagerð sem og í  langflestum öðrum  málum eru það þeir íbúar sem á svæðinu búa og greiða sína skatta og skyldur þar,  Það er fólkið sem á að hafa mest um hverja framkvæmd að segja. Það er stefna mín í mörgum málum. Fólkið sem býr og vinnur á hverju svæði fyrir sig, hefur langbestu og mestu þekkinguna og á það fólk á að hlusta.

Fjarstýring úr Reykjavík hugnast mér ekki hvorki í þessu máli né öðrum.

Laxeldi í vestfirskum fjörðum er orðinn stór atvinnuvegur og getur á næstu árum tvöfaldast með nýjum framleiðsluleyfum.

Munt þú og/eða flokkurinn styðja við uppbygginguna og hver er stefnan varðandi þennan atvinnuveg?

Svör:

Hérna er komið mál sem ég viðurkenni einfaldlega að hafa ekkert sérlega mikið vit á, ég nefnilega veit ekki allt þó ég sé að bjóða mig fram til þings og ætla ekki að reyna halda því fram. En ég veit hins vegar að þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir atvinnulífið en um leið mjög umdeilt, svo þetta verður að skoða í stærra samhengi.

Mér hugnast betur laxeldi á landi og myndi fremur beina því í þá áttina ef svo færi að ég hefði kost á því. Við fáum meiri tekjur af seldum laxveiðum á landinu heldur en útgerðin greiðir fyrir afnot að fiskimiðum og það segir sitt og eru tekjur sem við getum ekki misst og eigum frekar að stuðla að meira slíku.  Laxeldi í sjó segja mér fróðari ,ógna þeirri auðlind þó auðvitað séu ekki allir sammála því, en í þessu máli vil ég láta árnar okkar njóta vafans og stíga varlega til jarðar.

Það er heldur ekki góður kostur að setja öll eggin í sömu körfuna og það hefur landsbyggðar fólk reynt á eigin skinni. Fiskveiðikvóta er misskipt og verður að breyta því. Útgerðarrisar sem hafa safnað kvóta eins og engin sé morgundagurinn með gríðarlegum afleiðingum á byggðir landsins og ekki síst Vestfirðinga er eitthvað sem verður að breyta. Við verðum að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi og það að virkja fyrir vestan er klárlega hluti að því, hvort heldur sem er í  Laxeldi, matvælaframleiðslu eða öðrum orkufrekum iðnaði.

DEILA