Ísafjarðarbær: útsvarstekjur yfir áætlun

Útsvarstekjur Ísafjarðarbæjar fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2021 liggja nú fyrir og eru 1.154 m.kr. samanborið
við áætlun upp á 1.110 m.kr. Útsvarstekjur fyrir tímabilið eru því 43,7 m.kr. yfir áætlun.

Þetta kemur fram í minnisblaði stjórnsýslu- og fjármálasviðs um skatttekjur og laun fyrstu sex mánuði ársins sem lagt var fyrir bæjarráð Ísafjarðarbæjar í síðustu viku. Settur er fyrirvari um afstemmingar við Fjársýsluna sem eiga eftir að fara fram.

Af þessu má ráða að covid19 hefur ekki valdið sveitarfélaginu búsifjum hvað tekjur varðar sé miðað við áætlanir.

Sömu sögu er að segja varðandi tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Greiðslur á tímabilnu, þ.e. fyrstu sex mánuði ársins, eru samtals 431 m.kr. samanborið við áætlun upp á 416 m.kr. fyrir sama tímabil. Tekjur jöfnunarsjóðs eru því um 15 m.kr. meiri en áætlun gerði ráð fyrir.

Launakostnaður nálægt áætlun

Launakostaður sveitarfélagsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2021 nemur 1.494.358.128 kr. samanborið við
áætlun upp á 1.470.440.511 kr. Launakostnaður er því 23,9 m.kr. yfir áætlun eða 1,6%.

Frávik einstakra sviða er flest innan 5%. Hæst er frávikið í krónutölu á fræðslusviði. þar er launakostnaður 77 m.kr. yfir áætlun fyrstu sex mánuði ársins sem nemur 12%. Á hinn veginn er launakostnaður vel undir áætlun á æskulýðs- og íþróttasviði. Launin eru 27 m.kr. undir áætlun eða 22%.

Þegar skoðað er nánar hvar launin á fræðslusviði eru helst að fara fram úr áætlun kemur í ljós að það er á Sólborg. Þar er launakostnaður 34 mkr. umfram áætlun eða 30%. Hjá Grunnskóla Ísafjarðar reynast launin 11 m.kr. yfir áætlun en það er þó ekki nema 4% frávik. Á Laufási eru launin 9 m.kr. umfram áætlun eða 60%.

Á æslulýðs- og íþróttasviði skýrast frávikin helst með því að launakostnaðurinn á skíðasvæðinu var 9 m.kr. undir áætlun og 11 m.kr. undir á Vinnuskólanum.