Súðavík: útboð á hafnargerð í haust

Súðavíkurhreppur og Íslenska kalkþörungafélagið stefna sameiginlega að því að byggja upp iðnaðar- og hafnarsvæði innan Langeyrar í Álftafirði þar sem ný kalkþörungaverksmiðja mun rísa.

Framundan er gerð fyrirstöðugarðs og uppdæling á efni af hafsbotni til þess að útbúa landfyllingu um 38.000 m² og útbúnaður iðnaðarlóðar amk 32.000 m² undir fyrirhugaða verksmiðju Íslenska kalkþörungafélagsins. Áætlað er að fullbúin verksmiðja vinni um 120.000 m³ af kalkþörungaseti úr Ísafjarðardjúpi á ári þegar hámarksafköst fást.

Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri segir að öll skipulagsvinna sé að baki, bæði deiliskipulag fyrir iðnaðar- og hafnarsvæði á Langeyri er staðfest og nýtt aðalskipulag fyrir Súðavíkurhrepp. „Botnrannsóknir hafa farið fram til að meta jarðlög við fyrirhugað landfyllingarsvæði svo og fornleifarannsóknir og vistfræðiúttekt fyrir umhverfismat eru yfirstandandi og framundan. Íslenska kalkþörungafélagið hefur fengið staðfest leyfi frá Orkustofnun til nýtingar kalkþörungasets af hafsbotni.“

Vegagerðin mun sjá um framkvæmd við byggingu nýrrar hafnar við landfyllingu; 80 m kant með um 8,0 m dýpi. Bragi Þór segir að miðað við áætlanir muni fyrirstöðukantur fyrir landfyllingu innan Langeyrar verða boðinn út seinnipart ársins, líklega í ágúst / september. Stálþil í hafnarkant verður boðið út í haust og heildarútboð á hafnarmannvirkjum árið 2022. „Framkvæmdir við fyrirstöðugarð gætu hafist seint í haust eða byrjun vetrar 2021. Hönnunarvinna vegna verksmiðju er hafin og áætlað að unnt verði að byrja framkvæmdir í lok ársins 2022 eða byrjun árs 2023 ef allt gengur eftir. Hafnarmannvirki eru á gildandi samgönguáætlun og Vegagerðin með framkvæmdina í skipulagningu og útfærslu.“

Ýmislegt er þó eftir óleyst verðandi raforku til Áltafjarðar, en viðræður standa yfir um það og hugsanlegar lausnir. Þar hafa aðkomu vegna þeirra hluta sem þarf að leysa bæði Orkubú Vestfjarða og Landsnet en auk þess væntanlegur söluaðili raforku, Landsvirkjun.

Annars mun að sögn Barga Þórs verksmiðjan verða hybrid og geta notast við própangas og/eða raforku og því aðeins spurning um útfærslu og hvaða leiðir teljast heppilegar að öllu virtu.

Þá standa yfir viðræður milli Súðavíkurhrepps og Íslenska kalkþörungafélagsins um að koma samkomulagi og viljayfirýsingu í gerning og staðfesta vilja beggja.

„Mikilvægt og þarft verkefni fyrir norðanverða Vestfirði í öllu tilliti, enda mun uppbygging gjörbreyta atvinnulífi á staðnum og vera til góðs fyrir atvinnusvæðið og m.a. Ísafjarðarbæ vegna nálægðar við staðsetningu verksmiðju.

Áætlað er að um 30 störf +/- muni skapast við rekstur verksmiðju og afleidd störf að auki. Því er ljóst að óhjákvæmilegur fylgifiskur verður uppbygging húsnæðis og vonandi fjölgun íbúa í Súðavíkurhreppi, en auðvitað verður líklega hluti starfsmanna í nágrannasveitarfélögum og jafnvel fólk með skamma dvöl á svæðinu. Það er skoðun okkar hér í Súðavíkurhreppi að uppbygging kalkþörungavinnslu sé góð viðbót við atvinnulíf á svæðinu og ágætis vogarafl á móti öðrum greinum og þeim til fyllingar svo sem fiskeldi, sjávarútvegi og ferðamennskutengdum greinum að ógleymdum tæknigreinum.“

Sanddæluskipið Dísa dælir sandi á land innan til við Langeyrina.

Myndir: Bragi Þór Thoroddsen.