Hrönn Garðarsdóttir ráðin skólastjóri á Suðureyri

Hrönn Garðarsdóttir hefur verið ráðin sem skólastjóri við Grunnskólann á Suðureyri og mun hún taka til starfa í byrjun ágúst.

Hún tekur við starfinu af Jónu Benediktsdóttur sem hefur verið skólastjóri undanfarin þrjú ár. Jóna segir að það hafi verið ákaflega lærdómsríkt að fá að stýra skólanum og segist kveðja Grunnskólann á Suðureyri full af þakklæti til nemenda, samstarfsmanna og foreldra. 

Hrönn lauk námi frá Háskólanum á Akureyri árið 2006 með B.Ed. gráðu í leikskólafræðum og er með leyfisbréf sem leikskóla- og grunnskólakennari. Hún lauk M.Ed. gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum, með áherslu á sérkennslufræði frá Háskóla Íslands árið 2015.

Hún starfaði sem deildarstjóri við leikskólann Stekkjarás frá 2005 til 2011, starfaði sem sérkennari við Setbergsskóla og Hraunvallaskóla 2011 til 2014 og sem deildarstjóri í Setbergsskóla 2014 til 2016. Frá 2016 hefur hún svo starfað sem umsjónar- og sérkennari í Hraunvallaskóla.

Hrönn er fædd og uppalin á Flateyri og kveðst hlakka til þess að flytja aftur vestur í heimahagana.

DEILA