Vegrún, nýtt merkingakerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði

Dynjandi.

Á dögunum kynnti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra,Vegrúnu,nýtt merkingarkerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði. Vegrún er afurð samstarfshóps á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingar við uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Þetta kemur fram á vef Umhverfis og Auðlindaráðuneytisins.

Einnig kemur fram að merkingarkerfið var hannað til að samræma merkingar, til einföldunar fyrir uppbyggingaraðila og til að bæta upplifun ferðamanna og auka bæði gæði og öryggi á ferðamannastöðum og öðrum áfangastöðum í náttúru landsins. Vegrún stendur öllum til boða, jafnt opinberum aðilum sem og einkaaðilum, sem hyggjast setja upp merkingar á slíkum stöðum.

„Vegrún er frábært dæmi um afrakstur árangursríkrar vinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir og með aðkomu fleiri hagaðila,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. „Með Vegrúnu fáum við langþráða samræmingu í merkingum á friðlýstum svæðum og ferðamannastöðum og heildstætt kerfi sem sækir innblástur í íslenska náttúru. Það miðar að því að merkingar falli betur að íslensku landslagi og upplifun gesta verður jákvæðari.“

„Við viljum að upplifun gesta á ferðamannastöðum sé framúrskarandi. Með góðum merkingum
aukum við öryggi allra og styðjum við uppbyggingu ferðamannastaða um allt land. Þetta verkefni er því mikilvægt framfaraskref í ferðaþjónustu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

Vegrúnu verður hægt að nálgast á vefnum www.goðarleidir.is. Vefurinn er hugsaður sem upphafsreitur fyrir alla þá sem huga að uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum.

DEILA