Fugl dagsins er STELKUR

Stelkur er meðalstór, hávær vaðfugl. Á sumrin er hann grábrúnflikróttur að ofan og ljósari að neðan, minnst flikróttur á kviði. Hvítur gumpur og vængbelti eru áberandi á flugi, stélið er þverrákótt. Hann er grárri að ofan og jafnlitari á veturna. Ungfugl er brúnleitur að ofan, með gula fætur. Kynin eru eins.

Á varpstöðunum er stelkurinn áberandi og tyllir sér gjarnan á staura með stél- og höfuðrykkjum og hefur hátt ef honum finnst utanaðkomandi nálgast hreiður eða unga um of.

Fuglinn heldur sig í graslendi og votlendi á sumrin en í fjörum á fartíma og á veturna. Gerir sér hreiður í graslendi eða mýrum, oft í óræktarlandi í þéttbýli, í túnjöðrum eða við bæi.

Stelkurinn er að mestu farfugl. Flestir íslenskir stelkar fara af landi brott á haustin og hafa vetursetu á Bretlandseyjum og víðar í Vestur-Evrópu en 1.000–2.000 fuglar hafa vetrardvöl í fjörum á Suðvesturlandi. Um 19% af öllum stelkum í heimi verpa hér á landi.

Af fuglavefur.is

DEILA