Ísafjörður: Fossavatnsgangan hófst í gær

Dagskrá Fossavatnsgöngunnar 2021 hófst í gær fimmtudag, með Fjölskyldu-Fossavatninu og 25 km skauti. Fjölskyldu Fossavatnið skiptist í 1 km barnagöngu og 5 km göngu. Að sögn Daníels Jakobssonar var þátttaka góð, um 60 manns tóku samtals þátt í greinum dagsins. Veðrið slapp til, en vindur orðinn nokkuð hvass undir lokið, hins vegar var skíðafæri gott.

Á laugardaginn verður keppt í þremur greinum 12,5 km, 25 km og 50 km göngu. Alls eru um 550 manns skráðir í göngurnar. Daníel sagði að af sóttvarnarástæðum hefðu verið sett 550 manna hámark og það hefði þegar fyllst í þann fjölda þegar opnað var fyrir skráningu. Í venjulegu árferði eru um 1000 manns sem taka þátt í Fossavatnsgöngunni.

Gestir fara með rútu upp á skíðasvæðið og fara strax aftur til baka að göngu lokinni. Gestir dreifast um alla norðanverða Vestfirði að sögn Daníels.

Sigurvegari í 25 km skautagöngunni var Snorri Eyþór Einarsson. Phillip Bellingham frá Austurríki varð annar og þriðji varð Ísfirðingurinn ungi Dagur Benediktsson. Sautján luku keppni.

Íslandsbanki og Orkubú Vestfjarða eru meðal styrktaraðila keppninnar og voru undirritaðir samningar í gær.

Kristbjörn Sigurjónsson og Elías Jónatansson undirrita styrktarsamning vegna keppninnar.

Myndir: Fossavatnsgangan.