Fiskeldi: úr 165 í 1.030 störf

Í greiningu KPMG á áhrifum fiskeldis sem unnin var fyrir Vestfjarðatofu og birt í gær er m.a. lagt mat á bein störf, óbein/afleidd störf og mögulega fjölda íbúa sem fylgi hverju starfi miðað við framleiðslu á 15.000 tonnum, 30.000 tonnum og 51.000 tonnum á Vestfjörðum.

Framleiðsluleyfi Arnarlax og Arctic Fish eru núna 37.000 tonn á ári. Framleiðslan 2019 var liðlega 13.000 tonn og þá voru 165 störf tengd framleiðslunni.

Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar heimilar 64.500 tonn af lífmassa af frjóum laxi á Vestfjörðum og þá á eftir að meta Jökulfirði og rétt er að hafa í huga að burðarþolsmatið hefur meiri framleiðslumöguleika en áhættumatið. Þannig er burðarþolsmatið fyrir Ísafjarðardjúp 30.000 tonn en áhættumatið aðeins 12.000 tonn.

Miðað við 51.000 tonna framleiðslu telst KPMG til að því fylgi 1.030 bein og óbein störf. Þeim störfum fylgi um 1.850 íbúar.

50 milljarðar króna

Fimmtíu og eitt þúsund tonna framleiðsla af eldislaxi gefur af sér liðlega 50 milljarða króna í útflutningsverðmæti á ári. Það nálgast það að vera helmingur af útflutningsverðmæti alls þorsks 2019. Önnur viðmiðun er að það væri nærri þrefalt meira en verðmæti útflutnings af ýsu 2019.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!