Arnarlax fær leyfi fyrir starfsmannahúsnæði á Bíldudal

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt umsókn Arnarlax um leyfi fyrir tímabundnu húsnæði ofan við Völuvöll, Bíldudal. Um er að ræða gámaeiningar fyrir allt að 40 manns með alrými með eldhúsi o.fl. Húsnæðið er hugsað til 3-5 ára. Fram kemu í umsókninni að erfitt hefur reynst að manna vaktir í sláturhúsinu á Bíldudal vegna takmarkaðrar vetrarþjónustu Vegagerðarinnar þar sem starfsmennirnir hafa verið búsettir í öðrum þéttbýliskjörnum, en vaktir í sláturhúsi eru áætlaðar frá 04:00 – 22:00.

Í ljósi þess mikla húsnæðisvanda sem skapast hefur á Bíldudal í kjölfar fjölgunar íbúa tók sveitarfélagið jákvætt í erindi Arnarlax um aðstöðu fyrir tímabundna búsetu á fyrirhuguðu íbúðasvæði við Völuvöll. 

Að höfðu samráði við Skipulagsstofnun var litið á umsóknina sem óveruega breytingu á aðalskipulagi og aflað verður yfirlýsingar frá hagsmunaaðilum á svæðinu um að þeir geri ekki athugasemd við staðsetningu tímbundins húsnæðis á opna svæðinu til sérstakra nota, hagsmunaðilarnir eru: Golfklúbbur Bíldudals, fræðslu- og æskulýðsráð Vesturbyggðar sem fer með málefni íþróttasvæða og landeigendur Litlu- Eyrar.

Breytt verður ákvæðum aðalskipulags um opið svæði til sérstakra nota og heimiluð verða afnot af um 1 ha svæði fyrir tímabundið húsnæði, þ.e. án þess að landnotkun sé breytt. Sett verða inn ákvæði um stærð svæðis, umfang mannvirkja og íbúðafjölda, innviði, tímalengd notkunar, frágang svæðis á notkunartíma og að notkunartíma loknum.

Bæjarstjóra var falið að ganga frá leigusamningi við Arnarlax vegna svæðis undir tímabundið húsnæði ofan við Völuvöll til þriggja ára með fyrirvara um jákvæða niðurstöðu óverulegrar aðalskipulagsbreytingar.