Vegagerðin: úrskurðurinn stór áfangi

Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður þróunarsviðs Vegagerðarinnar segir að úrskurðurinn sé mjög stór áfangi á leiðinni og mjög mikilvægur.

„Hann tók efnislega á málinu og var nokkuð afdráttarlaus við fyrsta lestur. Það var því afskaplega mikilvægt að fá hann fram þó hann hafi kannski ekki úrslitaáhrif á framkvæmdatíma. Úrskurðurinn eyðir verulegri óvissu í verkefninu sem er af hinu góða.“

Ljúka samningum við landeigendur

Guðmundur segir að fókusinn verði nú að ljúka samningum við landeigendur sem fyrst. „Það er forsenda fyrir því að komast með frekari framkvæmdir af stað. Við erum svo að stefna á að byrja á þverun Þorskafjarðar nú í vetur. Vonandi tekst að eyða óvissu varðandi samninga við landeigendur og frekari kæruferli sem fyrst. Þá munum við meta hvað er hagstæðast fyrir verkefnið að koma í framkvæmd, hvort sem það er að sameina útboðsáfanga eða breyta röð þeirra.“

Vegagerðarmenn voru á ferð um Reykhólasveit í gær og hittu sveitarstjórnina.

„við vorum búnir að skipuleggja fund með sveitarstjórn Reykhólahrepps eftir hádegið í dag til að fara yfir verkefnið og áttum við afskaplega góðan fund með þeim. Þau voru jafnspennt og við að bíða eftir úrskurði og tilviljun að það hitti á þennan dag.

Fagleg vinna sveitarstjórnar skilaði árangri

Það má alveg halda því á lofti að sveitarstjórnin hefur staðið virkilega faglega að sínum undirbúningi varðandi breytingar á aðalskipulagi og útgáfu framkvæmdaleyfis þó svo að það hafi tekið sinn tíma.  Sá undirbúningur og vinna á bak við hann skilaði því að úrskurðurinn var mjög afgerandi.“

Guðmundur Valur bætti svo við:

„Við sáum svo að Borgarverk er byrjað á framkvæmdum í Gufufirði, þar voru nokkur tæki kominn til starfa í dag. Með þeirri framkvæmd sem á að ljúka næsta sumar verður búið að byggja um 1,5 km af nýjum Vestfjarðavegi ásamt 5 km af endurbyggingu núverandi vegar inn Gufufjörð með bundnu slitlagi. Þá mun malarkaflinn í Gufudalssveit styttast sem því nemur frá og með næsta sumri.“

 

 

 

DEILA