MÍ: sveitarfélögin styðja afreksíþróttasviðið

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að leggja til við bæjarstjórn styðja  afreksíþróttasvið Menntaskólans á Ísafirði, fyrir skólaárið 2020-2021, með styrktarsamningi alls að fjárhæð kr. 1.911.613.

Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari ritaði bæjarráði bréf og óskaði eftir stuðningi bæjarfélagsins.

Afreksíþróttasviðið var endurvakið haustið 2018 eftir nokkurra ára hlé og skipti stuðningur sveitarfélaganna þar sköpum segir skólameistari. „Það er mat okkar í MÍ að það sé mikilvægt að styðja vel við ungt og upprennandi afreksfólk í íþróttum og því viljum við halda ótrauð áfram enda hefur starfið á sviðinu gengið afar vel undanfarna tvo vetur og mikil ánægja er meðal nemenda.“

Nemendur á afrekssviði stunda æfingar í sjö mismunandi íþróttagreinum og nú eru 44 nemendur skráðir á afrekssviðið samkvæmt því sem fram kemur í erindi skólameistara.

Þá var sams konar erindi einnig lagt fram á fundi bæjarráðs Bolungavíkurkaupstaðar. Þar var óskað er eftir áframhaldandi styrk vegna afreksíþróttasvið MÍ að fjárhæð kr.484.000.

Bæjarráð tók  vel í erindið og vísaði því til fjárhagsáætlunargerðar.

DEILA