Plastlaus september

Plastlaus september er árvekniátak, sem haldið var í fyrsta sinn í september 2017.

Þátttaka fór fram úr björtustu vonum og ljóst að farvegurinn er frjór þegar kemur að umhverfismálum á Íslandi.
Átakið er árlegt og undirbúningsvinna stendur yfir allt árið – til dæmis með fræðslu um plastlausar lausnir á Facebook, Instagram og Snapchat, og í fyrirlestrarformi í fyrirtækjum og skólum. Átakið hefur vaxið mikið frá fyrsta árinu og æ fleiri sem eru farnir að átta sig á skaðsemi einnota plasts fyrir umhverfið.

Tilgangur verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til dagsdaglega og leita leiða til að minnka notkunina. Gríðarlegt magn af einnota plasti er urðað eða endar í hafinu sem er mikið áhyggjuefni.
Allt plast sem hefur verið framleitt er enn til og eyðist ekki þ.e. það plast sem ekki hefur endað í sorpbrennslu. Plastið brotnar niður í smærri einingar (örplast) og áhrif þess á lífríki er ekki að fullu þekkt.

Plastlaus september hvetur okkur til að nota minna af einnota plasti og velja vörur úr öðru hráefni þegar því er komið við.
Átakið snýst ekki um að vera fullkomlega plastlaus í september heldur að finna sér markmið í mánuðinum til að minnka neyslu á einnota plastumbúðum.

DEILA