Fjórðungsþing Vestfirðinga: vill meiri byggðakvóta

Fjórðungsþing Vestfirðinga að vori var haldið í síðustu viku. Að þessu sinni var eingöngu um fjarfund að ræða. Samþykkt var að halda haustþingið 9-10. október 2020 og þá í “raunheimum” og verður það haldið á norðanverðum Vestfjörðum að þessu sinni.

Á fundinum voru afgreiddir reikningar og starfáætlanir.

Jöfnunarsjóðurinn skertur

Hafdís Gunnarsdóttir formaður fór yfir starfsemina árið 2019 en fjórðungssambandið hefur unnið af miklum þunga að málum er varða raforkuöryggi, samgöngumál, hagsmunamál fyrir atvinnulífið og samskipti við ráðuneyti og stofnanir til að fylgja eftir þeim málum er varða hagsmuni Vestfirðinga.

Þau mál er hvíla þyngst á Vestfirðingum nú er staða jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en boðaðar skerðingar munu hafa mjög slæm áhrif á vestfirsk sveitarfélög.  Ályktað var um að skilgreindu hlutverki jöfnunarsjóðsins yrði ekki breytt og tíundað hversu mikilvægur sjóðurinn er fyrir rekstur minni sveitarfélaga.

Umfjöllunarefni haustþingsins verður áhrif Covid-19 á vestfirsk sveitarfélög en niðurskurðarhnífur ríkissjóðs hangir yfir og erfitt að meta hvar hann fellur þyngst niður.  Vegna óvissu um Hvalárvirkun má ekki slá af kröfum um að haldið verði áfram að vinna að uppbyggingu flutningskerfis raforku á Vestfjörðum til að tryggja afhendingaröryggi.

Línuívilnun verði byggðakvóti

Fjórðungsþinguð samþykkti tillögu frá Bolungavíkurkaupstað þar sem skorað er  á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir breytingum á lögum um stjórn fiskveiða í takt við tillögur starfshóps um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda sem kynntra voru í febrúar síðastliðinn.

Áætlað verðmæti umræddra aflaheimilda er um 7,5 milljarðar króna á síðasta fiskveiðiári sé miðað við heildaraflaverðmæti. Sé hins vegar miðað við verð á aflamarki samkvæmt gögnum Fiskistofu er verðmæti veiðiheimildanna um 5,5 milljarðar króna.

Meðal tillagna starfshópsins er að ónýttri línuívilnun verði úthlutað sem almennum byggðakvóta í samræmi við hlutdeild einstakra byggðarlaga á undangengnum árum. Liðlega 6000 tonn hafa í mörg ár runnið til útgerða sem veitt hafa með handbeitta línu og hefur gert þeim kleift að veiða 20% meira en kvótinn segir til um. Nú hefur orðið mikil breyting á útgerð línubáta og vill Fjórðungsþingið að þessum 6000 tonnum verði útdeilt til þeirra byggðarlaga sem nýttu sér línuívilnunina.  Gangi það eftir myndu um  40% kvótans renna til Vestfjarða.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!