Ísafjörður: tökum á nýrri stuttmynd lokið

Tökum er lokið á stuttmyndinni Rán eftir Fjölni Baldursson en þær hafa staðið yfir nú í maímánuði.

Stuttmyndin Rán fjallar um tvítugan strák sem býr úti á landi, Gunnar að nafni. Kærastan hans biður hann að sækja sig í vinnuna yfir í næsta þorp, hann reynir að fá lánaða drossíu föður síns til þess að sækja hana. Faðir hans neitar honum um bílinn, svo hann stelur bílnum með hjálp bróður síns. Þegar hann keyrir út úr bænum tekur hann upp í bílinn konu að nafni Rán og þá fara hlutir að gerast sem hann hefur enga stjórn á.

 

Tökum lauk formlega í byrjun vikunnar.  Fjölnir var ánægður með verkið : „Við þökkum okkar frábæra tökuliði fyrir frábæra vinnu á setti. Og okkar stórkostlegu leikurum sem skiluðu sínum hlutverkum af stakri snilld þökkum við kærlega fyrir þolinmæðina. Til okkar á sett komu leikarar á öllum aldri með mismikla reynslu. Saman unnu þeir með okkur að því marki að skapa skemmtilega karaktera og lögðu alltaf eitthvað auka inn í sköpunina.“

Jónína Margrét Bergmann leikur Rán, 40 ára gamla konu sem lendir í því að bíllinn hennar bilar þegar hún þarf að komast til borgarinnar og fær far hjá Gunnari. Gunnar getur bara gefið henni far áleiðis yfir í næsta þorp. Jónína Margrét hefur leikið á sviði og komið fram í allskonar verkefnum, svo sem auglýsingum, bíómyndum og stuttmyndum. Hún lauk framhaldsnámi í Leiktækniskólanum vorið 2019. Einnig hefur hún tekið hin ýmsu námskeið hérlendis og erlendis.

Magnús Eðvald Halldórsson leikur annað aðalhlutverk myndarinnar. Hann leikur Gunnar, tvítugan strák sem þarf að komast yfir í næsta þorp til að sækja kærustuna sína. Magnús hefur bæði leikið í bíómyndum og leikhúsi. Hann hefur komið að leikstjórn, framleiðslu og er bæði danshöfundur og dansari.

Atvinnu- og menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar veitti styrk til gerðar myndar.

Safnað er fyrir kostnaði á Karolina Fund og stendur söfnunin til 16. maí. Á mánudaginn hafði safnast fyrir um 60% af kostnaði.

https://www.karolinafund.com/project/view/2792