Við förum í gegnum þennan skafl

„Það eru fordæmalausir tímar“ er sennilega sú setning sem við heyrum oftast í dag. Yfir heiminn gengur faraldur með afleiðingum sem fáir hefðu getað séð fyrir og óvissan um framtíðina er mikil. Stórar og smáar þjóðir hafa lokað sig inni og hægt hefur á hjólum atvinnulífsins. Fyrirtæki hafa neyðst til að draga saman seglin og margir misst vinnuna eða tekið á sig minnkað starfshlutfall með tilheyrandi tekjumissi. Börn stunda skóla frá eldhúsborðinu og margir sinna vinnu heimavið. Fólk hittist lítið og saknar mannlegrar nándar, saknar þess að geta tekið utan um hvert annað. Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Hversu lengi verður heimurinn að taka við sér? Hversu djúp er krísan og hvernig vinnum við okkur út úr henni?

Við þessar aðstæður er mikilvægt að muna að við sem búum að Íslandi erum heppin. Við búum að besta heilbrigðiskerfi í heimi með fullkominn tækjabúnað og frábært starfsfólk sem hefur unnið kraftaverk síðastliðnar vikur. Þrátt fyrir ýmsar áskoranir hefur tekist að halda nærþjónustu sveitarfélaganna gangandi og verið gætt að þeim sem minna mega sín. Við eigum framúrskarandi skólafólk sem hefur hugsað í lausnum og haldið uppi menntun barna og unglinga við vægast sagt krefjandi aðstæður. Okkar starfsfólk hefur miðlað upplýsingum eins og kostur er og gert það vel. Mikilvægt er að fylgjast áfram með upplýsingagjöf á heimasíðu sveitarfélagsins og samfélagsmiðlum, ekki hika við að hafa samband ef eitthvað er óskýrt. Allir hafa þurft að taka þátt í þessu stóra verkefni og það er einfaldlega þannig að samstaða Íslendinga er einstök þegar á reynir.

Fleiri framkvæmdir og ný störf

Mikilvægt er að hafa í huga að við munum komast í gegnum þessa erfiðleika. Það mun taka á en við förum í gegnum þennan skafl og sá dagur kemur að sólin rís með nýjum tækifærum. Vonandi verður sem fyrst hægt að endurráða það fólk sem nú er að missa störfin sín, það er stóra verkefnið okkar. Við erum sterk þjóð með góða innviði og þurfum að hvetja okkur sjálf til dáða og muna hvers við erum megnug þegar við stöndum saman.

Á meðan erfiðleikarnir ganga yfir þurfa ríki og sveitarfélög að standa með heimilum og fyrirtækjum. Það ætlar Ísafjarðarbær að gera. Nú er unnið að því að fjölga sumarstörfum og átaksverkefnum fyrir unglinga og þá sem hafa misst atvinnu. Farið verður í fleiri framkvæmdir en áætlaðar voru og má þar nefna viðhaldsframkvæmdir með sérstaka áherslu á umhverfi og mannvirki. Það mun skapa störf. Við munum einnig greiða leið þeirra fyrirtækja sem vilja búa til ný störf. Við ætlum að halda uppi þjónustu og tryggja velferð íbúa og gæta þess að enginn verði skilinn eftir.

Þegar heimurinn allur horfir fram á kreppu í efnahagslífinu þá er gott að vita til þess að sveitarfélagið okkar stendur vel. Fjárhagslegt högg er óhjákvæmilegt en við erum vel í stakk búin til að takast á við það. Skuldir eru hóflegar og rekstur síðustu ára hefur verið góður. Þess vegna getum við bætt í tímabundið til að stuðla að öflugri viðspyrnu á þessum fordæmalausu tímum.

Að lokum hvet ég ykkur til að halda áfram að fylgja fyrirmælum yfirvalda um sóttvarnir því aðeins þannig snúum við vörn í sókn. Farið varlega og vel með ykkur.

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar

 

DEILA