Verndum þá sem veikir eru fyrir

Það var erfiður dagur í dag þegar ljóst var að búið var að greina veirusmit á hjúkrunarheimilinu Berg í Bolungarvík. Á Bergi og í hvíta húsinu (íbúðir eldri borgara í Bolungarvík) búa þeir sem einna líklegastir til að lenda í vandræðum með að hrista þessa óværu af sér og eru þ.a.l. í mestri hættu.

 

Það er á okkar ábyrgð sem yngri eru og höfum getu til að passa uppá þá sem veikari eru. Þessi bansetta veira hefur lagst harðar á eldri borgara og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Þegar við sprittum okkur, drögum úr nálægðinni við annað fólk og frestum öllum kaffiboðum erum við að fresta því að veiran dreifi sér. Þegar við sleppum því að fara í kaffi til afa og ömmu, þá erum við að vernda þau og það verður bara ennþá skemmtilegra að hittast þegar þetta er allt að baki.

 

Eldri borgarar í Bolungarvík, Vestfjörðum og annarsstaðar á landinu. Tökum þessari óværu alvarlega og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að bjóða henn ekki inn til okkar. Þeir sem geta eiga að halda sig í sjálfskipaðri sóttkví og fylgja þeim reglum sem hægt er að finna á www.covid.is

 

Munum bara að með því að fylgja leiðbeiningum og halda félagslegri fjarlægð, þá munum við sigra!

 

Mamma mín sagði mér alltaf þegar áföll gengu yfir. ‚Guð leggur ekki meira á okkur en við þolum‘. Ég trúi því og veit að við þolum þessar þrautir vegna þess að við erum sterkt samfélag sem bognar en brotnar ekki. Við tökumst á við þetta saman og saman munum við sigra þennan óvin.

Jón Páll Hreinsson

DEILA