Covid: búðir eru smitstaðir

Á upplýsingafundi á Ísafirði um covid19 á mánudaginn sem heilbrigðisyfirvöld og lögreglan á Vestfjörðum efndu til var tilkynnt að hertar aðgerðir myndu gilda áfram á Ísafirði, í Bolungarvík og Hnífsdal til að minnsta kosti 4. maí.

Er ákvörðunin byggð á því að nær öll smit á Vestfjörðum hafa komið upp í þessum byggðarlögum.

Karl Vilbergsson, lögreglustjóri sagði á fundinum að þar búast mætti við því að það drægist eitthvað að slakað yrði á aðgerðunum.

eitt samfélag

Súsanna Björg Ástvaldsdóttir‎, yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða kom með þessa skýringu samkvæmt því sem frá er sagt á visir.is þann 20.apríl:

„Súsanna sagði ekki mörg smit á Ísafirði en það væri stutt til Bolungarvíkur og mikið af Bolvíkingum sæki sér þjónustu til Ísafjarðar. Það hafi til að mynda komið í ljós þegar ný smit hafi greinst að fólk væri að sækja sér þjónustu til dæmis í búðir og apótek í bænum.“

Alls hafa 56 smit greinst í Bolungavík og 37 í Ísafjarðarbæ, þar af 34 á Ísafirði og í Hnífsdal.

Uppfært:

Í samtali við Súsönnu í kvöld kom fram hjá henni að hún væri með ummælum sínum að leggja áherslu á að Bolungavík og Ísafjörður væri eitt samfélag með miklum samgangi og ekki væri hægt að segja að uppruni smitanna komi frá einum hluta þess frekar en öðrum. Búðir og apótek væru að hennar mati smitstaðir og það væri hún að leggja áherslu á. Hefur fyrirsögninni og millifyrirsögn verið breytt með hliðsjón af því.