Flateyri: björgunarsveitin vill kaupa húsnæði af bænum

Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri hefur óskað eftir því við Ísafjarðarbæ  að kaupa hlut bæjarins í húsnæði sveitarinnar að Túngötu 7 á Flateyri. Að sögn Tinnu Ólafsdóttur, upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar er húsnæðið í eigu björgunarsveitarinnar og bæjarins, þar sem bærinn á 35,85% og lýsti sveitin áhuga sínum í febrúar á því að kaupa hlut bæjarins.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi málið á fundi sínum í vikunni og fól bæjarstjóra að ræða við björgunarsveitina Sæbjörgu á Flateyri um möguleg kaup björgunarsveitarinnar á húsnæðinu og hýsingu slökkviliðsbíls Ísafjarðarbæjar.

Nýi slökkvibíllinn er geymdur á slökkvistöðinni á Flateyri og er þar tiltækur fyrir útkallslið slökkviliðs Ísafjarðarbæjar á Flateyri. „Það eru vissulega að miklu leyti sömu einstaklingar og eru í björgunarsveitinni en björgunarsveitin er þó ekki með bílinn í sinni umsjá.“ segir Tinna.