Loðnan og loðin svör

Þessa dag­ana er mikið rætt um loðnu eða rétt­ara sagt loðnu­leysi. Rann­sókna­skip og nokkur fiski­skip sigla fram og til baka um íslensku fisk­veiði­lög­sög­una og telja loðnu­lóðn­ingar á mæli­tækjum sín­um. Síðan nota starfs­menn Hafró í landi þessi gögn til að reikna úr stofn­stærð og vísi­tölur loðn­unnar og bera síðan nið­ur­stöð­urnar saman við heima­til­búna og síbreyti­lega afla­reglu. Allt kemur fyrir ekki og framundan virð­ist vera rautt hættu­stig í loðnu­litlu haf­inu og því stefnir í aðra afla­lausu loðnu­ver­tíð­ina í röð hér við land.

Það er að mínu mati umhugs­un­ar­efni að eng­inn skuli spyrja spurn­inga um hvað sé að ger­ast í haf­inu. Einna helst er talað um að hækkun sjáv­ar­hita (sem að vísu hefur lækkað síðan 2012) og hinar ógn­væn­legu lofts­lags­ham­farir séu að gera út af við loðnu­stofn­inn. En er endi­lega víst að loðnu­leysi sé bara tengt nátt­úr­unni og breyti­leika í henni? Getur ekki einnig verið að aðgerðir okkar og ákvarð­anir í landi eigi hér ein­hvern hlut að máli?

Sam­spil stofna og veiða

Í ítar­legu við­tali sem Morg­un­blaðið átti við Hjálmar heit­inn Vil­hjálms­son fiski­fræð­ing þ. 13. des­em­ber 1995 sagði hann m.a. „Ef fram kemur stór þorsk­stofn verður að minnka loðnu­veið­ar.“ Í sama við­tali kom fram að 30-50% af fæðu þorsks­ins á árs­grund­velli væri loðna. Síð­ari tíma rann­sóknir hafa þrengt þetta bil og nú er almennt talað um að loðnan sé 37-40% af árlegri fæðu þorsks­ins.

Á síð­asta ári kom fram hjá Haf­rann­sókn­ar­stofnun að í haf­inu umhverfis Ísland synti nú  stærsti þorsk­stofn sem komið hefði fram í 60 ár og væri hann um 1.300 þús­und tonn, var­lega áætl­að. Eitt­hvað þarf slíkur stofn af fæðu og miðað við að þorsk­ur­inn éti 2-3% af þyngd sinni á dag er ekki fjarri lagi að þessi mynd­ar­legi þorsk­stofn þurfi a.m.k. 10.000.000 (10 millj­ón­ir) tonna af æti á ári ef hann á að halda hold­um. Ef 40% af fæðu þorsk­stofns­ins er loðna þarf þessi stofn því að gleypa í sig um 4 millj­ónir tonn af henni á ári hverju, ef hún er þá á annað borð til í sjón­um. Því er mér alger­lega fyr­ir­munað að skilja eft­ir­far­andi setn­ingu úr nýlegu rann­sókna­riti Haf­rann­sókn­ar­stofn­un­ar  um stofn­mat og líf­fræði loðnu: „Að með­al­tali hefur (ár­legt) át þorsks, ýsu og ufsa af loðnu verið metið um 150 þús­und tonn.“

Vel þekkt er meðal sjó­manna að þorskur étur næstum allt sem að kjafti hans kem­ur, ekki síst sína minni bræður og syst­ur. Það ætti því ekki að koma á óvart að ýmsir fæðu­teg­undir þorsks aðrar en loðnan hafi líka látið á sjá á und­an­förnum árum. Í þessu ljósi er fróð­legt að velta því fyrir sér hvaðan aðrir réttir á mat­seðli þorsks­ins en loðna, þ.e. um 60% eða um 6 millj­ónir tonna eru fengn­ir. Getur t.d. ekki verið sam­band milli til­vistar þessa risa þorsk­stofns og loðnu­skorts­ins og jafn­vel hruns í mörgum öðrum nytja­stofn­um? Á síð­ustu árum hefur rækju­stofn­inn hrunið (inn­fjarða­stofn­arnir alger­lega horfn­ir), sömu­leiðis hum­ar­inn, síld­in, hörpu­disk­ur­inn og lúð­an. Jafn­vel karf­inn er líka á nið­ur­leið. Til eru mynd­bönd af inn­volsi  úr maga þorsks sem sýna að allt að fimm smá­þorska eða allt að 50 rækjur geta verið í maga eins fiskjar.

Ábyrg fisk­veiði­stefna og óskeikul ráð­gjöf?

Sam­kvæmt almennri umræðu erum við með ábyrg­ustu fisk­veiði­stefnu í víðri ver­öld og ráð­gjöfin svo var­fær­in, nákvæm og vís­inda­leg að það jarðar við sér­visku, afneitun eða heimsku að bera brigður á ein­hvern hluta henn­ar. Af þessum ástæðum heyr­ist varla nokkur sjó­maður ræða þessi mál opin­ber­lega. Hins vegar veit ég eftir að hafa stundað strand­veiðar síð­ast­liðin átta sumur að van­traust og van­trú á ráð­gjöf og rann­sókn­ar­að­ferðir við sjáv­ar­nytjar hér við land er mjög útbreidd meðal sjó­manna.

Ekki verður ekki annað séð en að ennþá sé hver og einn fiski­stofn rann­sak­aður og mældur án þess að til­lit sé tekið til sam­spil hina ýmsu stofna og meg­in­stefnan sé að byggja upp alla fiski­stofna sam­tím­is. Í við­tali við Ólaf Kar­vel Páls­son fiski­fræð­ing í Fiski­fréttum 1. apríl 2015 setti hann fram þá skoðun að vist­kerf­is­rann­sóknir og sam­spil stofna hafi alla tíð haft allt of lítið vægi hjá Haf­rann­sókna­stofnun og alls ekki for­gang. Nán­ast öll fjár­hags­leg geta stofn­un­ar­innar færi í að mæla stofn­stærð með taln­ingu, dýpt­ar­mæl­islóðn­ingum og röllum af ýmsu tagi. Á þeim grund­velli og með notkun á til­vilj­un­ar­kenndum afla­reglum reikn­uðu menn sig síðan fram til ráð­gef­andi talna um árlegan kvóta hverrar teg­und­ar.

Loka­orð

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé kom­inn tími til að end­ur­skoða stefn­una og jafn­vel gera til­raun­ir. Er það t.d. sjálf­gefið að friða þurfi 400 þús. tonn af loðnu þegar þorsk­ur­inn einn étur 4 millj­ónir tonna? Er það líka sjálf­gefið að alltaf eigi að nota 20% afla­reglu á þorskinn hvort sem stofn­inn mælist 600 þús. tonn eða 1.300 tonn? Hver er skýr­ing á því að rækju­stofn­ar, hum­ar­inn, síldin og fleiri stofnar hafa verið á stöðugri nið­ur­leið það sem af er þess­ari öld, þrátt fyrir að til­lögum og ráð­gjöf hafi verið fylgt út í hörgul? Og hefur það aldrei komið til greina að end­ur­skoða kvóta­kerfið í ljósi þess að það grund­vall­að­ist í upp­hafi á því að við Ísland væri einn þorsk­stofn en síð­ari tíma rann­sóknir hafa sýnt fram á að við landið eru margir tugir stað­bund­inna stofna?

Magnús Jónsson

Höf­undur er veð­ur­fræð­ing­ur.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!