Hallgrímur Sveinsson

Kynni mín og Einars af Hallgrími Sveinssyni hófust fyrir tæpum 25 árum er ég tók við sem sóknarprestur á Hrafnseyri við Arnarfjörð í Þingeyrarprestakalli.  Ekki er hægt að nefna Hallgrím á nafn án þess að nefna Guðrúnu Steinþórsdóttur eiginkonu hans um leið. Þau voru staðarhaldarar og bændur á Hrafnseyri í 40 ár. Hann sá um Jón og hún um kindur og kollur, svo heyjuðu þau saman og voru samhent í öllu.

Þau voru í sóknarnefnd Hrafnseyrarkirkju og sáu um kirkjuna og kapelluna og staðinn af mikilli alúð og vandvirkni. Það var alltaf gott að koma og messa á Hrafnseyri. Það er föst hefð fyrir messu í kapellunni á Hrafnseyri á 17. júní og ef fært var á jólum og páskum og auk þess alltaf ein messa á sumrin í Hrafnseyrarkirkju. Ekki var oft messað á stórhátíðum en þau skipti afar eftirminnileg.

Alltaf sömu góðu og hlýju viðtökurnar hjá Hallgrími og nöfnu minni. Hann var bæði meðhjálpari og hringjari og átti sér uppáhaldssálm sem jafnan var  sunginn í sumarmessunum. „Áfram, Kristsmenn, krossmenn,“ eftir séra Friðrik Friðriksson.

Alltaf öllum boðið í kirkjukaffi af mikilli rausn. Heim í bæ áður en nýi, gamli bærinn var  reistur, þangað eftir það á sumrin. Hallgrímur var óþreytandi í því að fræða þá sem komu að Hrafnseyri um staðinn og sögu hans og um Jón Sigurðsson, líf hans, störf og ættir. Hann var hlýr í viðmóti og fræddi gesti af virðingu um hið liðna og tengdi nútímanum.

Hallgrímur sá nauðsyn þess að safna saman alls konar fróðleik sem annars hefði gleymst, stofnaði Vestfirska forlagið og fór að gefa út bækur, fyrst ritröð með fróðleik úr Arnarfirði og Dýrafirði en svo varð útgáfan fjölbreyttari og jókst ár frá ári. Alltaf fróðleikur ýmiss konar og góðar sögur úr mannlífinu.

Eftirfarandi vers í sálmi sem Matthías Jochumsson orti til flutnings við útför Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur kemur í hugann þegar ég kveð Hallgrím Sveinsson.

Ó, Guð, þín miskunn meiri er

en megi sál vor skilja.

Hvert ljós, sem kemur, lýsir, fer,

oss les þau orð þíns vilja:

Lær sanna tign þíns sjálfs,

ver sjálfur hreinn og frjáls,

þá skapast frelsið fyrst,

og fyrir Jesú Krist

skal dauðans fjötur falla.

Matthías Jochumsson

Ég minnist Hallgríms Sveinssonar með þakklæti og hlýju fyrir vináttu og liðnar ánægjustundir á Hrafnseyri við Arnarfjörð og í Dýrafirði. Guðrúnu, nöfnu minni, sendi ég einlægar vinar- og samúðarkveðjur og bið góðan Guð að styrkja hana og blessa.

Guðrún Edda Gunnarsdóttir

 

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!