Hvalárvirkjun fyrir dómi

Eigendur Drangavíkur, að stórum hluta til, og Landvernd og fleiri  hafa höfðað mál fyrir Héraðsdómi Vestfjarða þar sem krafist er ógildingar á ákvörðun Árneshrepps um deiliskipulag vegna Hvalárvirkjunar og einng er krafist ógildingar á útgefnu framkvæmdaleyfi til vegaframkvæmda til Vesturverks ehf. Vegna vanhæfis héraðsdómara Vestfjarða var settur dómari í málið frá Héraðsdómi Reykjavíkur og hefur málið verið rekið þar.

Vanhæfið kemur til af því að lögmaður kærenda er eiginmaður héraðsdómarans á Vestfjörðum. Síðan þetta var ákveðið hefur orðið sú breyting að Katrín Theódórsdóttir hefur tekið við málinu.

Hinir stefndu í málinu eru Árneshreppur og Vesturverk ehf. Hafa þeir krafist frávísunar á kröfunum.  Málflutningur fór fram fyrir nokkru og er búist við úrskurði dómsins um frávísunarkröfuna innan skamms.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hafnaði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða lægi fyrir, en ákvað síðar að fresta umfjöllun og afgreiðslu að öðru leyti á öllum kærumálum varðandi Hvalárvirkjun, þar með talið kærunni um deiliskipulagið og framkvæmdaleyfið sem bæði var kært til nefndarinnar og farið með fyrir dóm,  þar til því máli væri lokið fyrir dómstólum.

Eitt af því sem tekist er á um réttur til þess að kæra. Þeir eigendur að landi í Dangavík sem kæra byggja aðild sína á því að jörðin nái inn á áhrifasvæði virkjunarinnar. Því til stuðnings hefur verið lagður fram uppdráttur af landamerkjum Drangavíkur og Engjaness sem sýnir Drangavík mun stærri en sumir eigendur Drangavíkur og eigandi Engjaness telja rétt og telja þeir landið vera í eigu Engjaness.

Ef Drangavík reynist minni fellur aðild eigenda jarðarinnar að málinu. En eftir gæti staðið möguleg aðild náttúrurverndarsamtaka.  Það sem vinnur með frávísun er að  með landakröfunni er deilt um land en deiluaðilar eiga ekki allir aðild að dómsmálinu og geta ekki komið við vörnum. Þykir því eðlilegt að sú deila verði útkljáð sjálfstætt.

Hver sem niðurstaðan verður fyrir dómstólum þá mun hún hafa mikil áhrif á úrskurði úrskurðarnefndarinnar þegar kærumálin verða tekin fyrir þar.