Alþjóðleg ráðstefna til að bjarga Atlantshafslaxinum

Á fimmtudaginn var haldin í Reykjavík alþjóðleg ráðstefna um leiðir til að bjarga Atlantshafslaxinum. Í fréttatilkynningu frá aðstandendum ráðstefnunnar segir að leiðandi sérfræðingar margra landa hafi komið saman til að fást við hnignun stofnsins.

Ráðstefnan bar nafnið Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi og var verkefni Veiðiklúbbsins Strengs og Jim Ratcliffe til stuðnings Atlantshafslaxinum og helstu laxveiðiám svæðisins.

Segir í fréttatilkynningunni að stofn Norður-Atlantshafslaxins, sé bara um fjórðungur af því sem hann var á árunum upp úr 1970.

Í tilkynningunni segir:

 

„Meðal þessara sérfræðinga eru Guy Woodward frá Imperial College London, Dr Guðni Guðbergsson deildarstjóri sjávar- og ferskvatnsrannsókna hjá Hafrannsóknastofnun, Dr Colin Bull frá The Missing Salmon Alliance og Dr Nikolai Friberg frá Niva – norsku ferskvatnsrannsóknarmiðstöðin. Auk þeirra verða á ráðstefnunni prófessor Phil McGinnity, frá Environmental Research Institute við Háskólann í Cork á Írlandi, Dr Rasmus Lauridsen, yfirmanður fiskveiðirannsókna hjá Game & Wildlife Trust í Bretlandi og Dr James Rosindell, sérfræðingur í magngreiningarlíffræði við Imperial College.

Sir Jim Ratcliffe, stofnandi og stjórnarformaður INEOS, hefur um árabil verið öflugur bakhjarl verndarstarfs í þágu laxins á Íslandi. Hann hafði forgöngu um stofnun Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi til þess að styðja við tegundina með markvissum hætti.

 

Áherslur verndarsvæðisins eru einstakar vegna áherslu á að varðveita land og vistkerfi ánna á Norðausturlandi og viðhald uppeldisstöðva Norður-Atlantshafslaxins á svæðinu. Verkefnið er metnaðarfullt að umfangi með umtalsverðri fjárfestingu tengdri rannsóknum, uppbyggingu og vernd villta laxastofnsins, þar sem markmiðið er að verja eitt síðasta vígi Atlantshafslaxins.

 

Vísindamenn sem koma að aðgerðum Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi vonast til þess að svipta hulunni af því af hverju Atlantshafslaxinn er að hverfa. Fyrir valinu urðu óspilltar ár Norðausturlands en þar hafa færri þættir áhrif á vistkerfi ánna þar sem laxinn þrífst. Þekking sem á uppruna sinn í þessum vistkerfum á Íslandi er einhver haldbærasta leiðins sem stendur til boða til að greina ástæður og móta aðgerðir til að snúa við hnignun laxastofnsins. Árangur á Íslandi getur búið til vitneskju sem nýst getur um heim allan.

 

Aðgerðir Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi byggja á þremur þáttum, árvissum grefti hrogna úr löxum úr ánum sjálfum, byggingu laxastiga til að opna laxinum ný uppvaxtarsvæði, og uppgræðslu og skógrækt til að auðga fæðuúrval fisksins í ánum. Allar miða þessar leiðir að því að styðja við vöxt stofnanna í ánum og bæta lífslíkur þeirra. Vinnan er unnin í nánu samstarfi við bændur og nærsamfélagið.

 

Þetta mikilvæga verndar og rannsóknarstarf er fjármagnað beint af Sir Jim Ratcliffe auk þess sem allur hagnaður af starfsemi Strengs og af eignaumsýslu á Íslandi rennur aftur til verndarstarfsins. Markmiðið er að til verði sjálfbært framtak sem viðhalda muni verndarstarfinu um langa framtíð.“

 

„Þessi ráðstefna hjálpar til við að vekja athygli á þeirri staðreynd að Atlantshafslaxinn er nú í útrýmingarhættu. Með því að leiða saman sérfræðinga hvaðanæva að úr heiminum vonum við að finna megi nýjar lausnir til þess að snúa þróuninni við. Starfið sem unnið er hjá Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi styður við afkomu laxins þar, en meira þarf til að koma. Við vonum að ríkisstjórnir leggi okkur líka lið í þessari viðleitni,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!