Aflaverðmæti sjávarafurða

Verðmæti afla í ágúst nam 14,4 milljörðum króna sem er 21,3% meira en í ágúst í fyrra. Botnfiskafli jókst um 23,1% að verðmæti og var 8,5 milljarðar. Allar helstu botnfisktegundir jukust að verðmæti milli ára, þorskur um 10,8%, ýsa um 37% og ufsi um 72,9%. Verðmæti uppsjávarafla var 46,3% meiri en í ágúst 2018, eða tæplega 4,7 milljarðar en var tæpir 3,2 milljarðar 2018. Aðaluppistaðan í uppsjávaraflanum var makríll, en verðmæti hans var 4,3 milljarðar. Virði flatfiskafla var 20,3% minni en í ágúst 2018 og nam 1.077 milljónum.

Verðmæti afla sem seldur var í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam rúmum 7,3 milljörðum króna í ágúst. Verðmæti sjófrysts afla nam tæpum 4,8 milljörðum og verðmæti afla sem seldur var á markað til vinnslu innanlands nam rúmum 1,5 milljörðum.

Á síðasta fiskveiðiári, frá september 2018 til ágúst 2019, nam aflaverðmæti úr sjó 142,6 milljörðum, sem er 14% aukning miðað við fyrra fiskveiðiár.

Aflaverðmæti á Vestfjörðum í ágúst jókst um 0,6% frá sama mánuði í fyrra en verðmætaaukningin er 15,9% það sem af er árinu.