Vísindaportið: Arctic Circle-ráðstefnan kynnt

Næsta Vísindaport föstudaginn 18. október verður með öðru sniði en áður, en nemendur Háskólaseturs af námsleiðunum í Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði munu deila með okkur reynslu sinni af því að hafa setið ráðstefnuna Arctic Circle (Hringborð Norðurslóða) sem haldin var í Hörpu í Reykjavík dagana 10.-12. október s.l.  Sagt verður frá málefnum sem tekist var á um og sjónarmið sem fram komu, en á þessu þingi ræddu og deildu yfir tvö þúsund þátttakendur um framtíð norðurskautssvæðisins.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Arctic Circle er stærsta net alþjóðlegrar samræðu og samvinnu um framtíð norðurslóða. Hin árlega ráðstefna í Reykjavík sem fór nú fram í sjöunda skipti er sú stærsta á heimsvísu, þar sem þróun norðurskautsins og afleiðinga þess á framtíð jarðar eru í brennidepli.

Árlega mæta á Arctic Circle yfir 2.000 þátttakendur frá meira en 50 löndum í heiminum. Meðal þátttakenda má finna ráðamenn þjóða, þingmenn, embættismenn, vísindamenn, athafnamenn, leiðtoga fyrirtækja, fulltrúa frumbyggja,  umhverfisverndarsinna, námsmenn, aðgerðasinna, ásamt öðrum víða að úr heiminum sem láta sig málið varða.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl.12:10-13 og verður dagskráin að þessu sinni á ensku. Allir velkomnir.