Reykjanes: Deilt um hitaréttindi

Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Orkustofnunar frá 8. október 2018 um að veita Ferðaþjónustunni í Reykjanesi leyfi til nýtingar á jarðhita í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.
Í málinu var deilt um þá ákvörðun Orkustofnunar frá 8. október 2018 að gefa út nýtingarleyfi til fyrirtækisins Ferðaþjónustunnar Reykjanesi ehf. á jarðhita í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp þar sem fyrirtækið rekur ferðaþjónustu í mannvirkjum sínum á lóð fyrrum Héraðsskólans í Reykjanesi. Að baki þeim ágreiningi sem mál þetta snýst um eru deilur milli aðila um eignarrétt og nýtingarrétt á jarðhitaréttindum. Ísafjarðarbær er eigandi nefndrar lóðar og hefur gert grunnleigusamning um hana við leyfishafa. Orkubú Vestfjarða telur sig eiga jarðhitaréttindi þau sem um ræðir á grundvelli afsals Ísafjarðarbæjar, dags. 1. desember 1978, auk þess sem Orkubúið eigi borholu þá sem nýta eigi. Báðir þessir aðilar mótmæltu því að nýtingarleyfi yrði veitt og vísuðu til eignarréttarlegs ágreinings sem uppi væri. Verður kærendum báðum játuð kæruaðild að máli þessu, enda er ekki loku fyrir það skotið að hin kærða leyfisveiting hafi áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra, sbr. áskilnað 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Í úrskurðinum kemur fram að Orkustofnun skorti allar forsendur til þess að líta svo á að umsækjandi nýtingarleyfisins hefði með svo ótvíræðum hætti sýnt fram á rétt sinn til þess að nýta auðlind þá sem um ræðir að gefa skyldi leyfið út honum til handa. Verður nýtingarleyfið af þeim sökum fellt úr gildi. Af þessu leiðir að Orkubú Vestfjarða telur sig eiganda nýtingarréttar jarðhitans í Reykjanesi.

DEILA