Byggðastofnun: hagnaður fyrri hluta ársins

Árshlutareikningur Byggðastofnunar fyrir tímabilið janúar-júní 2019, var staðfestur af stjórn stofnunarinnar 30. ágúst 2019.

Hagnaður tímabilsins nam 24,7 milljónum króna.  Eiginfjárhlutfall í lok júní skv. eiginfjárákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var 20,07%.

Helstu niðurstöður úr árshlutareikningi Byggðastofnunar janúar-júní 2019

  • Hagnaður tímabilsins nam 24,7 milljónum króna.
  • Eiginfjárhlutfall skv. lögum um fjármálafyrirtæki var 20,07% en skal að lágmarki vera 8% auk 1,25% sveiflujöfnunarauka og 2,5% verndunarauka, eða samtals 12,25%.  Þann 1. febrúar 2020 mun sveiflujöfnunarauki verða 2,0% þannig að samanlögð krafa um eiginfjárauka veðrur 12,50%
  • Hreinar vaxtatekjur voru 253 milljónir króna eða 41,5% af vaxtatekjum, samanborið við 227,6 milljónir króna (44,4% af vaxtatekjum) hreinar vaxtatekjur árið 2018.
  • Laun og annar rekstrarkostnaður nam 288,4 milljónum króna samanborið við 265,8 milljónir árið 2018.
  • Eignir námu 17.052 milljónum króna og hafa hækkað um 2.166 milljónir frá árslokum 2018.  Þar af voru útlán 13.039 milljónir samanborið við 12.113 milljónir í lok árs 2018.
  • Skuldir námu 13.907 milljónum króna og hækkuðu um 2.141 milljónir frá árslokum 2018.

Þrjár fullnustueignir á Vestfjörðum

Fram kemur í árshlutareikningnum að Byggðastofnun á þrjár eignir á Vestfjörðum. Það eru Grænigarður og Hafnarstræti 9 – 13 á Ísafirði og Strandgata 37 á Tálknafirði. Grænigarður er 1.367 fermetrar og færður á 69,5 milljonir króna. Fasteignin á Hafnarstrætinu er færð á 6,5 milljónir króna og er 63 fermetrar að stærð.  Strandgatan er bókfærð á 12,4 milljónir króna og er 456 fermetrar að stærð.

Þá á Byggðastofnun 27,67% hlutafjár í Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum, 4,08% í Fiskvinnslunni Drang drangsnesi, 9,95% í Fánasmiðjunni á Ísafirði og 16,69% í Þórsberg á Tálknafirði.

 

DEILA