Ísafjörður: samþykkt að lækka fasteignagjöld

Meirihluti bæjarráðs Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær að lækka fasteignagjöldin á næsta ári. Það voru Hafdís Gunnarsdóttir (D) og Kristján Þór Kristjánsson (B)  sem stóðu að samþykktinni.

Ástæðan er hækkun fasteignamats sem að óbreyttu mun hækka fasteignagjöldin. Nýlega var tilkynnt um 12,7% hækkun fasteignamatsins sem gildir fyrir næsta ár og bætist það við 9,6% hækkun á síðasta ári.

Bókunin í heild:

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkir að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda í Ísafjarðarbæ og koma þannig til móts við stórhækkað fasteignamat í sveitarfélaginu. Þannig verði komið í veg fyrir frekari hækkun fasteignaskatta heimilanna í sveitarfélaginu.

Með þessari ákvörðun vill Ísafjarðarbær axla sína ábyrgð og vinna í takt við nýsamþykkta lífskjarasamninga á vinnumarkaði og stuðla að því að markmið samninganna skili sér til sannarlega til launþega.

Við komandi fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár verður samþykktin höfð til hliðsjónar. Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs sagði í samtali við Bæjarins besta að það væri vilji meirihlutans að koma til móts við íbúana og lækka álögur á þá.

Samþykkt bæjarráðs verður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar á morgun, fimmtudag og verður væntanlega staðfest.

Hafdís sagði aðspurð að um væri að ræða stefnumarkandi samþykkt en ekki lægi nánar fyrir á þessari stundu hvaða fasteignagjöld yrðu lækkuð né hve mikið.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Í-listans bókaði að Í-listinn skildi vel vilja til að lækka álögur á íbúa sveitarfélagsins en að hann óskaði eftir því að skoðað verði hvaða áhrif þessi tillaga hafi á framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Það sem kann að hafa áhrif á endanlega útfærslu samþykktarinnar er að ríkið greiðir í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sveitarfélögum háar fjárhæðir til viðbótar álögðum fasteignaskatti til þess að jafna mun sem er á mati fasteigna milli sveitarfélaga. Í síðasta ári fékk Ísafjarðarbær 268 milljónir króna í slíkt framlag.

Framlag ríkisins er hins vegar skilyrt því að álagningarstofninn sé fullnýttur. Því gæti lækkun á fasteignaskatti leitt til þess að lækka framlag ríkisins. Hafdís Gunnarsdóttir sagði að þetta atriði yrði sérstaklega skoðað  við útfærslu skattalækkunarinnar.

 

DEILA