Íbúðalánasjóður: 35% árshækkun íbúðaverðs á Vestfjörðum

Í síðustu mánaðaskýrslu Íbúðalánasjóðs um fasteignamarkaðinn er sérstakur kafli um Vestfirði. Það vekur athygli að þar segir að fasteignaverð á Vestfjörðum hafi náð sér vel á strik rá árinu 2017.

Í skýrslunni segir að þróun á 6 mánaða hlaupandi meðaltali söluverðs og ásetts verð hafi verið þannig að hækkanir á Vestfjörðum samsvari 35% árshækkun söluverðs og 26% hækkun á ásettu verði íbúðarhúsnæðis á svæðinu yfir sama tímabil. Með hlaupandi meðaltali er átt við meðaltali síðustu sex mánaða hverju sinni.  Þessi mikla hækkun byrjaði í mars – maí mánuði 2018.

Guðmundur Sigfinnsson hagfræðingur hjá íbúðalánasjóði segir að stofnunin sé að koma sér upp grunni til að fylgjast með þróun fasteignaverðs um landið á svipaðan hátt og Þjóðskrá Íslands fylgist með fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu með því að gefa mánaðarlega út verðvísitölu fyrir svæðið.  Hann telur að vænta megi þess að grunnurinn verði tilbúinn síðar á árinu.

Guðfinnur segir að í tölum ÍLS sé  mæld þróun fermetraverðs íbúða skv. þeim kaupsamningum sem gerðir hafa verið.  Í raun sé byggt á upplýsingum úr kaupsamningum síðustu sex mánuði á Vestfjörðum öllum.

Aðferðafræðin á bak við þær tölur sem birtar voru í nýjustu mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs varðandi þróun í vísitölu íbúðaverðs á Vestfjörðum er í grunninn sú sama og Þjóðskrá Íslands notar til að reikna vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Viðskiptum er skipt í nokkra flokka eftir tegund húsnæðis og fjölda herbergja. Þróun vísitölunnar fer eftir þróun fermetraverðs í viðkomandi flokkum og er vegin eftir vægi flokkanna í viðskiptum síðustu 12 mánaða. Aðferðafræðin er þó sérstaklega hönnuð til að gagnast við að mæla íbúðaverð í minni sveitarfélögum og svæðum þar sem eru fremur lítil viðskipti.

Verulegur munur er á þessum birtum tölum Íbúðalánasjóðs og tölum Þjóðskrár Íslands um fasteignamat. Guðmundur segir það skýrast af því fasteignamat á að endurspegla gangverð í febrúar árið á undan viðkomandi matsári og til að meta gangverð hverrar fasteignar er í langflestum tilvikum notast við svo nefnda markaðsaðferð. Tölfræðilegar aðferðir eru notaðar til að útbúa líkan sem lýsir mati á virði eignar út frá eiginleikum hennar. Tölfræðivinnsla fyrir fasteignamat íbúðarhúsnæðis 2020 byggðist á fasteignaskrá og gögnum um kaupsamninga sem gerðir voru frá janúar 2013 til mars 2019.

 

DEILA