Breytingar á Fossavatnsgöngunni vegna snjóleysis

Frá Fossavatnsgöngunni 2018. Mynd: fossavatn.com.

Forsvarsmenn Fossavatnsgöngunnar segja að veðurspáin fyrir helgina sé fín þegar gangan fer fram.

Vegna snjóleysins þarf að gera ákveðnar breytingar og Rás- og endamark Fossavatnsgöngunnar hefur verið flutt á Breiðadalsheiði þar sem ekki er snjór á hefðbundnu start- og marksvæði Fossavatnsgöngunnar á Seljalandsdal. Við höfum því þurft að grípa til varaplans. Það er svohljóðandi:

Göngur á laugardegi (50 km, 25 km H og 12,5 km):

  • Start og mark verður á Breiðadalsheiði, þar sem startið í göngunni var fram til ársins 2013.
  • Gengnir verða tveir 21 km hringir í lengstu vegalengd og einn 21 km hringur í stað 25 km vegalengdarinnar. Þá verður 12,5 km gangan  8 km að þessu sinni.
  • Keppendur verða ræstir með „fljótandi starti“ nema elítuflokkur sem ræstur verður með hópstarti klukkan 8:00.
  • „Fljótandi start“ þýðir að keppendur geta lagt af stað hvenær sem er á milli kl. 8 og 10. Fólk tekur einfaldlega rútu upp á heiðina og startar svo um leið og það er tilbúið. Flögutíminn gildir, þ.e.a.s. tímatakan fer af stað þegar keppandi fer yfir ráslínuna og stoppar svo þegar komið er í mark. Það verða því ekki allir ræstir saman eins og við höfum átt að venjast hingað til.
  • Keppendur taka rútu upp á Breiðadalsheiði í stað Seljalandsdals áður.  Engin önnur umferð verður leyfð á veginum.
  • ATH að allar rútur fara frá Torfnesi. Þær byrja að ganga um kl. 7:30 (nema rútan fyrir elítuflokkinn sem fer kl. 06:30) en frekari tímasetningar verða kynntar betur síðar.
  • Engin tímamörk verða í göngunni í ár.
  • Gangan telst full vegalengd og gildir því í Worldloppet passann og í Landvættarþrautinni.

Göngur á fimmtudegi (25 km F, 5 km og 1 km)

  • Start og mark verður á Breiðadalsheiði, þar sem startið í göngunni var fram til ársins 2013.
  • 25 km vegalengdin breytist í 21 km.
  • Keppendur verða ræstir með hópstarti eins og venjulega.
  • ATH að allar rútur fara frá Torfnesi. Þær byrja að ganga um kl. 15:00 en frekari tímasetningar verða kynntar betur síðar.
  • Fólki er heimilt að fara á einkabílum upp á Breiðadalsheiði á fimmtudeginum, en er beðið að leggja á Botnsheiðarvegi, skv nánari útskýringum á staðnum.
  • 21 km gangan er gild fyrir silfurstimpil í Worldloppet passa.

DEILA