Heilsugæslusel á Flateyri í athugun

Ákveðið var að loka á þessu ári heilsugæsluselinu á Flateyri í sparnaðarskyni. Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbirgðisstofnunar Vestfjarða segir að búið sé að segja  upp húsnæðinu á Flateyri og rennur uppsagnarfresturinn út í lok apríl. Hins vegar er í athugun hvort annað ódýrar húsnæði fáist á Flateyri. Segir Gylfi að hann hafi átt óformlegar viðræður við formann félags eldri borgara, starfsfólk okkar sem búsett er á Flateyri og aðra Flateyringa um hvernig best væri að koma málum fyrir. „Ýmsar forsendur þurfa að vera til þess að hægt sé að koma heilsugæsluseli fyrir, svo sem gott aðgengi, lágur rekstrarkostnað og fleira.“

„Ég hef einnig farið á fund bæjarráðs Ísafjarðarbæjar vegna málsins og verið í sambandi við bæjarstjórann. Það sem er til umræðu á þeim vettvangi er einkum bættar almenningssamgöngur og hvort bærinn eigi húsnæði sem gæti hentað til þessara nota.“

Vonast Gylfi til þess að geta boðað til íbúafundar á Flateyri í næstu viku.

 

Varðandi aðrar sparnaðaraðgerðir segir Gylfi Ólafsson að þær séu að mestu óbreyttar og undirbúningur þeirra allra langt kominn. „Enn eigum við eftir að útfæra fleiri aðhaldsaðgerðir til að mæta þeim rekstrarhalla sem fyrirsjáanlegur er að óbreyttu.“