Reykhólar: fyrrverandi sveitarstjórar blanda sér í vegamálin

Á heimasíðu Reykhólahrepps fara fram umræður um vegamálin og sérstaklega um breytta afstöðu hreppsnefndar sem vinnur að framgangi R leiðar en ekki Þ-H leiðarinnar sem fyrri hreppsnefndir hafa í mörg kjörtímabil stutt og unnið að.

Athygli vekur að tveir fyrrverandi sveitarstjórar Reykhólahrepps blanda sér í umræðurnar.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri og alþm. skrifar og henni líst hvorki vel á frekari tafir né breiðari veg um Barmahlíð og segir að samstaða þurfi að vera meðal Vestfirðinga um málið:

„Mér þykir ákaflega leitt að heyra um sífelldar tafir á því að ákvarða af hálfu hreppsnefndar um hvaða leið skuli valin. Þessi vegalagning skiptir meira máli fyrir sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjörð heldur en okkur hér. Þó vissulega skipti hún máli fyrir Gufudalssveitina. Þegar um þjóðveg er að ræða milli sveitarfélaga finnst mér að þau eigi öll að hafa ákvörðunarrétt um hvar og hvernig eigi að leggja veginn. Ég tek undir það að samstaða þarf að vera með Vestfirðingum um svona mál. Að breikka veg um Barmahlíð til þess að hann sé í samræmi við alla staðla líst mér ekki á. Þegar sá vegur sem nú er þar var lagður þurfti að gera það með mikilli varúð til að skemma ekki skóginn eða valda náttúruspjöllum. Það var gert mjög vel af hálfu Vegagerðarinnar á sínum tíma. Nú eru einnig bújarðir, skógrækt og fuglafriðunarland í hættu ef leggja á veginn um Reykhóla. Verði það niðurstaðan tefst þessi vegarlagning um mörg ár.“

Bjarni P. Magnússon, einnig fyrrvarandi sveitarstjóri segir að vegagerð um Þorskafjörð (Teigsskógur)  sé besti kosturinn:

„Rúm 20 ár eru síðan ég sem sveitarstjóri staðfesti skipulagstillögu um vegarstæði um Teigsskóg. Að þeirri tillögu unnu með annara þáverandi vegamálastjóri. Ég er enn jafn sannfærður þá og nú um að vegur um Þorskafjörð er besti kosturinn.
Við sem búum á höfuðborgarsvæðinu eigum friðland í Heiðmörk. Mér er mjög til efs að margur færi þangað til að njóta ef enginn væri vegurinn. Vegur um Teigsskóg gefur fólki færi á að njóta fegurðar svæðisins. Ég bið íbúa Reykhólahrepps að hugsa sig vel um áður en vegarstæði um Reykjanes verður samþykkt.“