Fleiri en Massa þrif óánægð með að fá ekki endurnýjun á gistileyfi – leiðrétting

Fram kom á dögunum í frétt hér á BB að eigendur Massa þrifa á Ísafirði séu mjög ósátt við þá stefnu Ísafjarðabæjar að stöðva endurnýjun á gistileyfum. En forsvarsmenn Massa þrifa eru ekki ein um að vera óánægð með þetta og í sameiginlegu bréfi sínu til Ísafjarðarbæjar þann 7. ágúst síðastliðinn lýsa forsvarsmenn Miðhús ehf, Massa þrif ehf, Gentlespace gisting og Engjavegs yfir óánægju sinni að bærinn hyggist ekki gefa þeim leyfi til að halda áfram þeim rekstri sem þau hafa rekið síðustu ár. Forsvarsmenn fyrirtækjanna segjast hafa sótt um endurnýjun á gistileyfum nú á vordögum en ekki fengið enn formlegt svar frá bænum og viti því ekki í hvaða stöðu þau eru varðandi reksturinn. Taka þau fram að þau hafi þó fengið jákvæða umsögn og formlegt svar frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar og Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða.

Segja þau í bréfi sínu til bæjarins að þar sem leyfin þeirra séu útrunnin þá séu þau að bjóða upp á ólöglega gistingu og taka fram að ekkert þeirra vilji það. Benda þau á að á gististöðum sé bókað langt fram í tímann og því sé ekki hægt að leggja rekstur fyrirvaralaust niður án þess að skaði hljótist af fyrir gesti og rekstraraðila. Taka þau dæmi um að fullbókað sé hjá þeim til að mynda þegar Fossavatnsgangan fari fram í maí á næsta ári og að margar bókanir séu komnar fram fyrir árið 2019.

Kemur fram í bréfi þeirra að þau hafi öll verið með leyfi fyrir íbúðargistingu fyrir ferðamenn síðastliðin ár og hafi lagt í það mikinn metnað og fjárfestingar með það í huga að um langtímarekstur væri að ræða. Segja þau að engu þeirra hafi dottið í hug að svo rótgróin fyrirtæki fengju ekki áframhaldandi leyfi. Vekur hópurinn athygli á breyttri reglugerð 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 649&2018 frá því í júní síðastliðnum þar sem segir að ekki er gerð lengur krafa um að allir gististaðir utan heimagistingar skuli vera starfræktir í atvinnuhúsnæði.

Í bréfi sínu spyrja þau hvort það sé stefna bæjarins að í Ísafjarðarbæ verði einungis stærri gistiheimili og hótel í boði fyrir ferðamenn. Og hvernig verði hægt að sinna gistiþörf ferðamanna ef íbúðagisting verði lögð af. Segja þau að miðað við lista hjá sýslumannaembættinu yfir leyfishafa þá sýnist þeim að margir starfi án leyfis og hafi auk þess aldrei sótt um leyfi og því hafi þessi nýja stefna engin áhrif á þá. Því er þeirri spurningu varpað upp hvort hugsanlega verði til neðanjarðarhagkerfi sem bærinn fær þá engar tekjur af.

Hópurinn krefst svara og að farið verði yfir málið sem allra fyrst. Auk þess gera þau athugasemd við að ráðandi aðili á gistimarkaði á Ísafirði sem hafi mikla hagsmuni af málinu skuli sitja fundi og taka ákvörðun fyrir hönd bæjarins.

Aron Ingi
aron@bb.is