Færri börn á hvern starfsmann í leikskólum Ísafjarðarbæjar

Mynd úr safni

Á bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar 17. september var lagt fram minnisblað frá Margréti Halldórsdóttur, sviðstjóra skóla- og tómstundasviðs. Þar er farið yfir kostnað og ástæður þess að lagt er til að breyta viðmiðum á fjölda barna á hvern kennara í leikskólum. Þetta byggir á minnisblaði Guðrúnar Birgisdóttur, skóla- og sérkennslufulltrúa, þar sem hún stingur uppá að leikskólalíkanið verði endurskoðað. Fræðslunefnd lagði þá til við bæjarstjórn að: „Tillögur um breytingar á fjölda barna á starfsmann verði samþykktar og felur starfsmönnum að láta fylgja kostnaðaráætlun með.“

Kostnaðurinn við breytinguna væri aðallega á leikskólanum Sólborg á Ísafirði þar sem bætast við 0,8-0,9 stöðugildi. Kostnaður við hvert stöðugildi fer eftir menntun starfsmanns en gert er ráð fyrir að á ársgrundvelli sé um að ræða 5-7 milljónir. Kostnaður á þessu ári eða í 4,5 mánuð gæti því orðið 1,9-2,6 milljónir. Staða launaáætlunar Sólborgar var þann 31. maí 2018, 1,5 milljón yfir áætlun. Þó á eftir að leiðrétta launaáætlun vegna langtímaveikinda fimm starfsmanna og því ljóst að sú breyting sem fræðslunefnd leggur til við bæjarstjórn rúmast innan launaáætlunar Sólborgar.

Í minnisblaði Margrétar Halldórsdóttur kemur einnig fram að mörg sveitarfélög hafi verið að skoða hvernig bæta megi starfsaðstæður leikskóla fyrir börn og starfsfólk. Nokkur sveitarfélög eru komin af stað með vinnu í þá áttina og til dæmis hefur Hafnarfjarðarbær fækkað fjögurra og fimm ára börnum á hvern kennara.

Reykjavíkurborg hefur einnig samþykkt sambærilegar breytingar en rannsókn sem þar var gerð kom mjög skýrt fram að leikskólakennarar telja að fækka þurfi börnum á hvern kennara. Að þeirra mati er álag stærsti vandinn sem starfsemi leikskólanna stendur frammi fyrir og meðal annars vegna of margra barna á hvern kennara.

Með því að hagræða á þann hátt þá skapast svigrúm til einstaklingsmiðaðrar nálgunar sem oft er meiri þörf á, þegar börnin eldast og ýmis frávik koma í ljós í þroska og hegðun. Með fækkun barna á hvern kennara gefst tækifæri til að vinna með litla hópa og mæta þörfum fjölbreytts barnahóps, þar sem meðal annars börnum með annað móðurmál en íslensku fjölgar stöðugt.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og taki gildi frá og með 1. janúar 2019. Jafnframt óskar bæjarráð eftir því að hafin verði vinna í fræðslunefnd og á skóla- og tómstundasviði við að skoða starfsumhverfi barna og starfsmanna í leikskólum í samræmi við tillögu fræðslunefndar.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA