Landslið U16 æfir á Ísafirði þessa daga

Þessa dagana eru 14 strákar að æfa körfubolta baki brotnu í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði. Þetta er landslið U16 í körfubolta, en tveir drengjanna, þeir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir eru frá Ísafirði. Allajafna æfir liðið í Reykjavík en þjálfarinn Ágúst Björgvinsson sagði í samtali við BB að ákveðið hefði verið að koma á Ísafjörð til að koma til móts við bræðurna. „Það kom til tals í vor að fara vestur og æfa og svo var settur upp rosalega flottur pakki fyrir okkur þar sem við getum getum gist saman og borðað saman og erum að æfa við bestu aðstæður,“ sagði Ágúst. „Við ætlum að taka 6 æfingar og einn æfingaleik og verðum hérna fram á sunnudag,“ sagði hann ennfremur, en leikurinn fer fram á morgun, 21. júlí klukkan 17.

Landsliðið keppti í Finnlandi um daginn og gekk mjög vel. „Við segjum að við höfum orðið Norðurlandameistarar þar því við unnum allar Norðurlandaþjóðirnar,“ segir Ágúst hress. „Við töpuðum fyrir Eistunum og enduðum í 2. Sæti en áttum fína leiki og gekk mjög vel. Næst er ferðinni heitið til Sarajevo 7. ágúst til að keppa á Evrópumóti. Fram að því erum við að æfa upp á nánast hvern einasta dag.“

Sæbjörg
bb@bb.is