Teiknað með tjöru

Sigurður Atli vann verkin sem sýnd eru nú í Gallerí Úthverfu. Mynd: Julie Gasiglia.

Sýningin Merkilína eða “Line of Reasoning” opnaði síðastliðinn laugardag, þann 16. júní í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. Sýningin er samvinnuverkefni þeirra Sigurðar Atla Sigurðssonar og Leifs Ýmis Eyjólfssonar en þeir hafa unnið saman að verkefninu Prent og vinir og sýnt víða, bæði hérlendis og erlendis. Á sýningunni Merkilína eru stór tjöruprent sýnd en þau voru prentuð á Ísafirði með jarðvegsþjöppu.

Sigurður Atli sagði við blaðamann BB að hann hafði verið í nokkra daga á Ísafirði fyrir opnunina ásamt tveimur starfsnemum sínum. „Sýningin er partur af stærra verkefni sem er samstarfsverkefni míns og Leifs Ýmis þar sem við vinnum með bæði hugmynda- og aðferðafræði prentsins í ýmsum birtingarmyndum. Hugmyndin hér var að vinna með efni á staðnum. Við fengum tjöru úr Tjöruhúsinu en tjaran er bæði tenging við staðinn þar sem hún var notuð við að tjarga skip og svo er tjaran líka tengd prentiðnaðinum. En hún er klístruð og óviðráðanleg, þannig að þetta var ákveðin áskorun.“

Útkoman á verkunum er ansi skemmtileg þar sem notast er við merkilínu og tjöru. Mynd: Julie Gasiglia.

Sigurður segir að þeir félagar hafi svo notast við svokallaða merkilínu, línu sem notuð er til að merkja lóðir í byggingariðnaði. „Við notuðum það til að búa til einhverskonar teikningu og þaðan kemur svo nafnið á sýningunni. Þetta er eitthvað svo merkilegt orð, ef maður hugsar um eitthvað sem hefur merkingu, þ.e. “Line of reason” eða “Line of meaning”. Teikning er í raun hreinasta birtingarmynd hugsunar. Við höfum auðvitað ljóðlist, en í myndlist er teikningin beint frá huga í efni.“

Sigurður Atli vinnur sem myndlistarmaður og sér um prentverkstæðið í Listaháskólanum. Hann heldur einkasýningar og samsýningar en þetta er fyrsta sýningin þar sem hann vinnur einn innan Prent og vinir verkefnisins. Sýningin verður opin til 29. júlí næstkomandi og er um að gera að líta við í því skemmtilega gallerí sem Úthverfa er og sjá verk Sigurðar Atla með eigin augum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA