Stefnir að því að opna brugghús í Súðavík

Micheal mun byrja að brugga um 200 flöskur sem seldar verða á Vestfjörðum. Stefnt er að því að hefja framleiðslu á næsta ári. Mynd: Westfjords Winery.

Bandaríkjamaðurinn Michael Delcau stefnir að því að opna brugghús í Súðavík á næsta ári sem ber nafnið Westfjords Winery. Þar mun hann brugga vín úr krækiberjum og bláberjum, auk þess að nota ýmis krydd sem finnast á Vestfjörðum. Hann segir vöruna koma til með að vera einstaka og innblásna af fegurð Vestfjarða.

Michael kom fyrst til Íslands fyrir þremur árum og vann sem sjálfboðaliði á Melrakkasafni Íslands í Súðavík. Hann kom svo aftur fyrir tveimur árum og vann á sama stað ásamt því að vera í starfsnámi hjá Matís. Michael er mikill vínáhugamaður og hafði tekið eftir þeim fjölmörgu brugghúsum sem eru um allt Ísland. En hann veitti því athygli að ekki var verið að brugga vín og langaði því að athuga með þann möguleika.

Í samtali við blaðamann BB sagði Michael að honum finnist aðlaðandi að nota þau ber sem finnast á svæðinu. „Mig langaði prófa mig áfram og nota það sem ég get fundið á svæðinu, líkt og bláber og krækiber. Ég er byrjaður að fikta við þetta, bruggaði svolítið þegar ég fór til Bandaríkjanna og kom tilbaka til Súðavíkur með prufur sem ég leyfði fólki að smakka á. Þeim leist vel á þetta svo ég hélt áfram með ferlið og er nú kominn með öll tilskilin leyfi. Nú þarf ég bara að halda áfram að leita að styrkjum fyrir verkefnið.“

Micheal hefur fengið styrki á Vestfjörðum nú þegar og ætlunin er að hefja framleiðslu árið 2019. Hugmyndin er að byrja smátt og framleiða um 200 flöskur sem myndu fara í sölu á Vestfjörðum. En langtímaáætlunin er að geta selt um allt land í vínbúðum og á veitingastöðum. Michael segir það afar sérstakt að fara í svona verkefni á Vestfjörðum, það sé áskorun en það sé líka ástæðan fyrir af hverju hann fór af stað með þetta. „Náttúrufegðurðin er aðkallandi og einstök og veðráttan einnig. Þess vegna er ég viss um að varan verði líka einstök. Ég þekki orðið vel berin sem vaxa á svæðinu og ég hlakka til að sjá útkomuna.“ segir Michael að lokum.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA