Stærstu málin í Kaldrananeshreppi

Í Kaldrananeshreppi var eins og víða annarsstaðar á Vestfjörðum persónukjör í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Í sveitarstjórn Kaldrananeshrepps eru núna Finnur Ólafsson fiskmarkaðsstjóri, Ingólfur Árni Haraldsson sjómaður, Eva Katrín Reynisdóttir sjómaður, Margrét Ólöf Bjarnadóttir sjómaður og Arnlín Óladóttir skógfræðingur. Varamenn eru Halldór Logi Friðgeirsson sjómaður, Bjarni Þórisson hugbúnaðar sérfræðingur, Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur, Ingi Vífill Ingimarsson bóndi og Ómar Pálsson smiður.

Finnur Ólafsson verður áfram oddviti hreppsins en hann hlaut 92% atkvæða í kosningunni. Í samtali við blaðamann BB sagði Finnur að niðurstöður kosningana leggðust vel í hann: „Já já, mér líst mjög vel á þetta. Einstaklega vel bara“. Stærstu málin í hreppnum segir hann vera atvinnumál og húsbyggingar: „Það þarf að auka fjölbreytnina í atvinnumálum innan sveitarfélagsins og auka húsnæði fyrir fólk sem vill búa hér“ segir Finnur. Mikil vinna hefur átt sér stað undanfarið í Kaldrananeshreppi við lagningu ljósleiðara. „Ljósleiðarinn verður lagður í Bjarnafirðinum í sumar og á næsta ári stendur til að klára restina af sveitarfélaginu, Drangsnes og nágrenni“ segir Finnur hress.

Dagrún Ósk
doj5@hi.is