Minni ferðamannastraumur í Reykjanesi en í fyrra

Sundlaugin í Reykjanesi er bara volg nema á bestu sumardögum.

Ferðamannastraumurinn í Reykjanesi hefur verið minni en í fyrra að sögn Jóns Heiðars Guðjónssonar, hótelstjóra í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Segir hann að það stafi meðal annars af því að það sé minni umfreð um Djúpið og vegna veðursins. Hann segir þó að stærsta ástæðan fyrir minnkandi innkomu hótelsins vegna ferðamanna sé þó vegna þess að fyrr á þessu ári tilkynnti Orkúbú Vestfjarða eigendum hótelsins að reksturinn þyrfti að byrja að greiða fyrir heita vatnið sem ekki þurfti að gera áður. Hótelstjórinn segist ekki hafa verið undirbúinn þessum aukna rekstrarkostnaði. Jón segir einnig að það sé alveg á hreinu að ef Orkubú Vestfjarða hefur rétt á að byrja að rukka fyrir notkun á heita vatninu geti hótelið ekki staðið undir þeim aukna kostnaði og að líklega muni þurfa að hætta rekstri. ,,Núna er laugin hálf köld og mun verða það áfram ef ekkert breytist. Aðeins er þægilegur hiti á bestu sumardögunum.”

Hótelstjórinn segir einnig að hann hafi nú þegar þurft að vísa hópum frá sem ætluðu að sækja laugina. Fólk frá Ísafjarðarbæ og Bolungarvík og reyndar öllu svæðinu hefur um árabil komið í Reykjanes og er þá laugin mikið aðdráttarafl. Nú hefur það dregist saman vegna þess að laugin er ekki heit. Í fyrra var oft fullt um helgar þegar Vestfirðingar sóttu bæði tjaldsvæðið og laugina. Jón Heiðar segist vera mjög undrandi yfir því að Orkubúið skuli með allt of skömmum fyrirvara geta tilkynnt þetta einhliða. Hótelið sem er í landi Ísafjarðarbæjar hafi alltaf fengið heitt vatn án endurgjalds frá náttúrulegu rennsli.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA