Jólahugleiðing

Finnbogi Hermannsson

Nú er fram undan að þruma af sér jólin. Fimmtánsorta konur hafa staðið sveittar bak við eldavélina í móðu og mistri eldhúsanna og ætla ekki að láta sitt eftir liggja. Búnar að setja upp jólagardínur og taka efriskápana.  Engin húsmóðir vönd að virðingu sinni sleppir því að taka efriskápana og vei þeirri konu sem  tekur ekki efriskápana fyrir jólin.

Stórættað fólk að norðan steikir laufabrauð og öll familían sameinast við að skera þetta út. Á mínu heimili var laufabrauðið jafnan keypt á söluborði tónlistarskólans á Silfurtorgi. Af einhverjum ástæðum lenti búnkinn einatt upp á efriskápunum. Svona gekk þetta áratugum saman og gott ef laufabrauðsleifar eru ekki enn þá uppi á efriskápunum í eldhúsinu frá þessari tíð.

Alténd var þó verið að styrkja gott málefni.

Lifandi jólatré hefur alltaf verið keypt hjá björgunarsveitinni á Ísafirði. Einkennilegt að tala um lifandi jólatré sem er orðið hálf dautt og verður steindautt á þrettándanum. Haldið er niður í slysavarnahús og trén litin haukfránum sjónum. Svo kemur maður auga á gám fyrir utan og þar eru auðvitað fallegustu trén. Þeir ætla að svæla fyrst út trjám með þremur toppum og boginni rót sem ekki er hægt að ná réttum! Liprir björgunardrengir fara með manni út og tosa í fleiri tré úr gáminum með ærnu erfiði strákagreyin. Þau reynast þá bara vera eins og hin og þetta var víst eini gámurinn. Svo er hringsólað um ískalt sýningarsvæðið í Guðmundarbúð og loks tekin ákvörðun. Og þá er tréð  orðið það langfallegasta. Sett í grisju, borgað og borið út í bíl.  Stoltur heimilisfaðir hengir tréð svo út í bílskúr þar sem er jökulkuldi.

Sérstök athöfn þegar jólatréð er tekið inn kvöldið fyrir Þorláksmessu. Sagað neðan af því úti á tröppum og ef það er of svert þarf að höggva utan af því.  Tekst oft ekki fyrr en í þriðju tilraun að saga tréð rétt svo það standi nú vel í fætinum. Komist tréð ekki ofan í fótinn þarf að höggva sem áður segir utan af því og til þess nota ég flugbeitta skaröxi.  Alls ekki bolöxi. Ég er jafnan búinn að brýna öxina vel áður en lagt er til atlögu við jólatréð. Nú er komið að konunni að sjóða vatn í stórum potti. Hann borinn fram í gang og tréð sett ofan í sjóðandi vatnið. Látið standa þar nokkra hríð og drekka í sig vökvann. Engin sjáanleg breyting verður á trénu en þetta var einhvern tímann ráðlagt af Ráðleggingarstofu Kvenfélagasambands Íslands. Þær vaða sko engan reyk þær kvinnur.

Jæja, kemur að því að trénu er stungið niður í fótinn. Þá byrjar fyrst ballið að ná því réttu. Ég hef leyft mér að setja lóðbretti á jólatré og það oftar en einu sinni þegar ekki varð samkomulag um að tréð stæði rétt. Þrjár skrúfur eða fjórar ganga inn í trjábolinn til að stífa baðminn af. Verður að gæta þess að skrúfa allar jafnt ef ekki á illa að fara.

Tréð á endanum borið til stofu og þá verður að meta hvaða hlið er fegurst. Hugsa mér þá að jólatré hafi fjórar hliðar. Eftir nokkra snúninga finnst rétta hliðin. Er þá jafnan minnst á jólatréð okkar á Núpi í Dýrafirði þegar hross komust í tréð úti við og átu helminginn af því. Bithaga hrossanna var stillt inn í horn á stofunni og varð engum meint af. Þetta var svokallað lifandi jólatré sem foreldrar mínir  sendu okkur að sunnan. Þarf varla að taka slíkt fram þar sem hross éta ekki allajafna plastjólatré.

Enn er lóðbrettið sett á tréð og það rétt endanlega af. Einhver verður svo að skríða undir tréð og hella vatni í fótinn og skal slíkt endurtekið eftir þörfum. Að skreyta jólatréð hefur verið í verkahring kvenleggs heimilisins, en húsbóndinn séð alfarið um meðferð bitvopna.

Hangiketið er sérstakur kafli í undirbúningi jóla. Mörg hin síðari ár hefur það komið norðan úr landi. Það er göfugt kjöt sem gengið hefur í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði sem lifandi fé. Bæði læri og frampartur. Heimareykt við mó og sauðatað og er óviðjafnanlegt. Ung kona annast reykinguna og finnur af jómfrúrlegum  næmleik sínum hvenær nóg er reykt.

Nú þarf að ákveða stærð bitanna sem eiga að fara í pottinn. Það er á valdi húsmóðurinnar. Lærið yfirleitt í þrennt og hækillinn af. Framparturinn í fernt. Skorið inn að beini allan hringinn. Kemur svo til Teits og Siggu að saga hvorttveggja og óútskýrt hvers vegna ævinlega er byrjað á lærinu. Sögin alltaf hvítþvegin áður en látið er til skarar skríða. Gott er að hjálpast að við að saga og heldur þá konan ketinu á bretti en vér sögum beinið hátíðlega með fumlausum handtökum. Þurrka verður af söginni á milli sagarfara svo ekki verði allt útklístrað.

Stóri hlandpotturinn á Hóli hefur þegar hér er komið sögu verið sóttur niður í kjallara. Hann er fylltur köldu vatni á eldavélinni samkvæmt  tilmælum Ráðleggingastofu húsmæðra. Þær vita hvað þær syngja. Líður nú og bíður og kemur suðan upp á ketinu eftir langa hríð. Þá er straumurinn minnkaður og soðið lengi lengi. Loks er slökkt undir og vatn og ket látið kólna í pottinum. Það er einnig aðferð Ráðleggingastofunnar.  Áður fyrr var allt fært upp sjóðheitt með steikargaffli eða spaða sem Steinólfur bóndi í Fagradal kallaði uppfærslujárn heitrar soðningar. Hangiketið bíður nú síns tíma á köldum stað og klútur breiddur yfir.

Á mínu heimili hefur tíðkast að húsfreyjan búi til það sem kallað er frómass. Matarlím þarf í frómass og eins gott að gleyma ekki matarlíminu í jólainnkaupunum. Einnig útheimtir frómassið eða frómassinn eins og sumar kalla þetta sérrí. Ég sem þetta rita er þá sendur í Ríkið að kaupa sérrí. Alltaf sama sérríið, Rich Bold. Eru það einu skiptin sem ég fer í Ríkið án samviskubits því ég er að kaupa þetta fyrir konuna. Sérríið er alltaf sett á gólfið í pottaskápnum þangað til þess er þörf í frómassinn. Og ég verð að segja fyrir mína persónu að betri frómass hef ég hvergi fengið en það sem hún blessunin býr til.

Þegar hér er komið ræðunni mega sjálf jólin ganga í garð klukkan 18:00 á aðfangadag. Verða þá allir mjög skyndilega voða góðir og kyssast og faðmast; gleðileg jól. Jafnvel verstu illmenni meyrna um sinn og verða með öllu afhuga illvirkjum sínum. Rámar jafnvel í  jólabarnið sem fæddist innan um rollur og asna í Betlehem og engum datt í hug að vísa þeim úr landi. Vitringar komu meira að segja með jólagjafir og voru það fyrstu jólagjafirnar, gull reykelsi og myrra. Langt í það að fótanuddtækið og sléttujárnið yrðu  fundin upp,  hvað þá segularmbandið.

Multum absurdum in capite vaccae er latína.

Sem þýðir á íslensku Margt er skrýtið í kýrhausnum.

Gleðileg jól

Finnbogi Hermannsson

DEILA