Laugardagur 10. maí 2025
Heim Blogg Síða 2337

Samningur um Blábanka á Þingeyri samþykktur

Blábankinn á Þingeyri

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum síðast liðinn fimmtudag, samning um uppbyggingu samfélagsmiðstöðvarinnar Blábanka á Þingeyri. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að stofnun samfélagsmiðstöðvar á Þingeyri, með það að markmiði að veita og laða að þjónustu sem nýtast mun nærsamfélaginu og gestum þess.

Í fréttatilkynningu frá Ísafjarðarbæ kemur fram að þjónusta á Þingeyri hafi minnkað undanfarin ár. Í kjölfar þess að Pósturinn og Landsbankinn drógu úr sinni þjónustu á Þingeyri árið 2015 hafði Nýsköpunarmiðstöð samband við Ísafjarðarbæ og lagði til að þróaður yrði þjónustukjarni eða samfélagsmiðstöð á Þingeyri sem gæti verið fyrirmynd samskonar kjarna í öðrum þorpum á landsbyggðinni. Um er að ræða tilraunaverkefni sem getur orðið brautryðjandi verkefni í byggðamálum á Íslandi.

Kynningarfundir verða haldnir á næstu vikum.

 

Fréttatilkynning Ísafjarðarbæjar:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær, 16. mars 2017, samning um uppbyggingu samfélagsmiðstöðvarinnar Blábanka á Þingeyri, sem er byltingarkennt þróunarverkefni í byggðamálum á Íslandi. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að stofnun samfélagsmiðstöðvar á Þingeyri, með það að markmiði að veita og laða að þjónustu sem nýtast mun nærsamfélaginu og gestum þess. Nafn verkefnisins, Blábanki, er dregið af lit Landsbankahússins í miðbæ Þingeyrar, en er jafnframt tilvísun í bláa hagkerfið.

Þjónusta á Þingeyri hefur minnkað undanfarin ár. Í kjölfar þess að Pósturinn og Landsbankinn drógu úr sinni þjónustu á Þingeyri árið 2015 hafði Nýsköpunarmiðstöð samband við Ísafjarðarbæ og lagði til að þróaður yrði þjónustukjarni eða samfélagsmiðstöð á Þingeyri sem gæti verið fyrirmynd samskonar kjarna í öðrum þorpum á landsbyggðinni. Um er að ræða tilraunaverkefni sem getur orðið brautryðjandi verkefni í byggðamálum á Íslandi.

Leitast verður við að þróa þjónustuna í Blábankanum í samvinnu einkaaðila, opinberra aðila og íbúa á Þingeyri, þannig að þarfir Íslendinga nútímans fyrir þjónustu verði hægt að uppfylla á Þingeyri.  Ísafjarðarbær mun m.a. leggja áherslu á að gera opinbera þjónustu aðgengilegri, samskipti milli íbúa og opinberra stofnana skilvirkari, sem og að skapa grundvöll að félags- og efnahagslegri nýsköpun. Vinnan er nú vel á veg komin.

Árið 2020 verður Þingeyri við Dýrafjörð orðinn miðpunktur Vestfjarða, m.t.t. samgangna, þegar Dýrafjarðargöng verða opnuð. Aðstandendur verkefnisins telja nauðsynlegt að nota tækifærið og gera þorpið að þjónustumiðstöð þar sem ýmis atvinnustarfsemi, ferðamannaiðnaður, menning og mannlíf geta stutt hvað annað og að laða að þjónustu sem nýst getur nærsamfélagi og gestum.

Aðstandendur verkefnisins eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ísafjarðarbær, innanríkisráðuneytið, Landsbankinn, Simbahöllin og Vestinvest. Verkefnið var hluti af Vestfjarðaskýrslunni og var ákveðið að veita verkefninu stofnframlag og rekstrarframlag næstu þrjú árin frá ráðuneytinu. Stofnuð verður sjálfseignarstofnun utan um verkefnið og verður auglýst eftir stofnfélögum frá 13. apríl til 1. september nk. Blábankaverkefnið verður ekki rekið út frá hagnaðarsjónarmiði, heldur verður eingöngu leitast við að ná inn tekjum fyrir kostnaði.

Starfsemi Blábankans verður margvísleg, en verkefnið er unnið í samræmi við niðurstöður úr samtölum við íbúa, um þá þætti sem þeim þykja mikilvægir fyrir Þingeyri. Má þar helst nefna póst- og bankaþjónustu, námskeið, fræðslufundi og dægradvöl fyrir börn að loknum skóladegi. Í Blábankanum verður nútíma útgáfa af bókasafni, með hefðbundnu bókaláni, en einnig aðstaða og aðstoð í tölvum. Í Blábankanum verður opið og sveigjanlegt vinnurými, þar sem hægt er að leigja vinnuaðstöðu til lengri eða skemmri tíma. Leitast verður við að hafa aðstöðuna hlýlega með góðri nettengingu, kaffiaðstöðu, nútímalegri fundaraðstöðu með fjarfundarbúnaði, auk stakra vinnustöðva. Blábankanum er ekki ætlað að hýsa veitingastaði, gistirými eða matvöruverslun. Sköpunarþorpið Þingeyri er einnig framtíðarsýn sem aðstandendur verkefnisins vilja innleiða, m.a. með því að setja upp sjálfstætt FabLab í Blábanka með stuðningi Nýsköpunarmiðstöðvar og samstarfi við Vélsmiðjuna á Þingeyri. Vonast er til að starfsemi Blábankans muni gefa fólki tækifæri til að hittast, læra hvert af öðru og stofna til samstarfs, t.d. listamannabúða og skapandi námskeiða.

 Auglýst verður eftir starfsmönnum í tvö 50% stöðugildi, annars vegar starf forstöðumanns, sem hefur umsjón með starfsemi, rekstri og markaðsstarfi miðstöðvarinnar, og hins vegar í starf staðgengils forstöðumanns, sem hefur umsjón með vinnurými, sinnir almennri afgreiðslu og þjónustu.

Kynningarfundir verða haldnir á næstu vikum, m.a. fimmtudaginn 13. apríl kl. 18:00 á Þingeyri.

Auglýsing

Stórauka stuðning við Safetravel

Öryggismál ferðamanna hafa verið í brennidepli síðustu misseri.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, og Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, skrifuðu í gær undir samstarfssamning við Slysavarnafélagið Landsbjörg sem felur í sér stóraukinn stuðning við verkefnið Safetravel. Samningurinn er til þriggja ára og hljóðar upp á 35 milljónir króna á ári, til viðbótar við framlag Slysavarnafélagsins Landsbjargar í formi fjármuna og vinnu af hálfu sjálfboðaliða félagsins.  Ráðuneyti ferðamála leggur fram 25 milljónir króna á ári en lagði til samanburðar fram 16 milljónir á liðnu ári. Samtök ferðaþjónustunnar auka sitt framlag úr 6 milljónum árið 2016 í 10 milljónir á ári. Auk þess styður Icelandair Group verkefnið myndarlega.

Samningurinn markar tímamót og skapar forsendur til að auka verulega við Safetravel verkefnið sem Slysavarnafélagið Landsbjörg sinnir varðandi slysavarnir og öryggismál ferðamanna og hefur félagið þó unnið mikið og gott starf á þessu sviði um árabil. Verkefni sem stefnt er að því að efla á grundvelli þessa samnings eru meðal annars: Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar, skjáupplýsingakerfi ferðamanna og  vefurinn Safetravel.is, m.a. með þýðingu á akstursefni vefsins á kínversku.

smari@bb.is

Auglýsing

Patreksdagurinn í dag

Patreksfjörður.

Í tilefni Patreksdagsins verður boðið upp á kvikmyndasýningu í kvöld í Skjaldborgarbíó og það er Fríða og Dýrið sem verður á boðstólum. Patreksfirðingar hafa í gegnum árin haldið þennan dag hátíðlegan með ýmsum hætti, árið 2008 var til dæmis einleikurinn Pabbinn í boði en árið 1996 stóð gleðskapurinn yfir í viku er verslanir og þjónustufyrirtæki voru með uppákomur, kynningar og tilboð, handverkshús skörtuðu sínu fegursta, félagsmiðstöðin kynnti starfsemi sína, leikfélagið með kvöldvöku, kráarstemning á hótelinu o.fl.

Heilagur Patrekur, verndardýrlingur Íra, fæddist í Wales í kringum árið 385 og var skírnarnafn hans Maewyn. Hann var heiðingi fram að 16 ára aldri þegar hann var hnepptur í þrælahald og snerist í framhaldi af því til kristinnar trúar. Hann varð annar biskup yfir Írlandi og vann við að kristna Íra í 30 ár, oft var hann handtekinn en tókst ætíð að sleppa. Þjóðsagan segir að hann hafi m.a. reist upp fólk frá dauða og útrýmt öllum snákum á Írlandi í messu. Hann dó 17. mars árið 461 og hefur sá dagur alla tíð síðan verið haldinn hátíðlegur á Írlandi sem dagur heilags Patreks.

Lengst af voru það einungis kaþólikkar sem héldu daginn hátíðlegan á Írlandi en í seinni tíð hefur hann orðið almennur hátíðisdagur. Í Bandaríkjunum varð dagurinn að hátíðisdegi árið 1737 þegar íbúar í Boston héldu hann fyrst hátíðlegan.

Eins og ýmis örnefni hérlendis bera með sér virðist ljóst að írskra áhrifa hafi gætt við upphaf byggðar í landinu. Í hópi þeirra örnefna er nafn Patreksfjarðar.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Blásarinn prófaður á Hrafnseyrarheiði

Einn af vorboðunum á Vestfjörðum er þegar að vegirnir yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar eru opnaðir, oftar en ekki eftir margra mánaða vetrarlokanir. Hyllir nú mögulega undir þá tíð að Vestfirðingar þurfi ekki að aka 450 kílómetra leið á milli byggðalaga á norður- og suðursvæðum fjórðungsins, en í morgun mátti sjá Gunnar Sigurðsson byrja að ryðja Hrafnseyrarheiði í blíðskaparveðri. Guðmundur Björgvinsson verkstjóri hjá Vegagerðinni á Vestfjörðum, segir að ekki sé víst að heiðin verði opnuð alveg á næstunni en verið sé að kanna aðstæður til opnunar, jafnframt því sem verið er að prófa snjóblásara Vegagerðarinnar eftir allsherjar viðgerð. Guðmundur segir þó tíðarfar vetrarins geta gefið ástæðu til bjartsýni þar sem ákaflega snjólétt hafi verið á Vestfjörðum. Ákvörðun um opnun heiðanna verður tekin eftir helgi.

annska@bb.is

Auglýsing

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsir yfir andstöðu við áfengisfrumvarpið

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í gær lagði Sigurður J. Hreinsson fram eftirfarandi tillögu f.h. allra viðstaddra bæjarfulltrúa að umsögn bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um fyrirliggjandi frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak. Í umsögn bæjarstjórnar kemur fram eindregin andstaða við frumvarpið.

„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsir yfir andstöðu við frumvarp að breytingu á lögum (86/2011) um verslun með áfengi og tóbak.


Í frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis verði aflagt og smásala verði að ákveðnu marki frjáls ? bjór, léttvín og sterkt áfengi verði þar með selt í almennum verslunum. Að auki er í frumvarpinu lagt til að leyfa auglýsingar á áfengi.
Á undanförnum 20 árum hafa sveitarfélög eflt forvarnir gegn áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna með góðum árangri. Í evrópskri vímuefnarannsókn frá árinu 2015 má sjá að íslenskir unglingar eru ólíklegri en evrópskir unglingar til að hafa drukkið áfengi, slíkur árangur er ekki sjálfsagður. Einsýnt er að með breytingunum er gerð aðför að þessum góða árangri sem náðst hefur í forvarnastarfi.


Hugmyndir sem þessar, sem ganga gegn lýðheilsusjónarmiðum og fara þvert gegn ráðgjöf þeirra sérfræðinga sem hafa það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í umræðu og ákvarðanatöku, eru ekki bara í andstöðu við almenna skynsemi heldur getur framkvæmd þeirra verið beinlínis hættuleg. Frumvarpið er taktlaust og er með því lagt til að fara þvert gegn stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuefnavörnum og vinna gegn markvissu forvarnastarfi sveitarfélaga undanfarinna ára, auk þess sem það stangast á við aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gegn lífsstílstengdum sjúkdómum sem og nýlega samþykktum Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.


Landlæknir, heilbrigðisstarfsfólk, samtök lækna, Vá Vest hópurinn og fjölmargir aðrir aðilar sem vinna að heilsueflingu og velferðarmálum vara eindregið við samþykkt frumvarpsins og þeirri breytingu sem í því felst. Bent hefur verið á rannsóknir sem sýna að með mikilli fjölgun sölustaða mun aukið aðgengi að áfengi leiða til aukinnar neyslu ? meðal annars meðal barna og ungmenna.


Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggur ríka áherslu á forvarnastarf og vill hafa í forgangi að búa börnum og ungmennum sem best uppvaxtarskilyrði. Heilsa íbúa, hagsmunir og velferð barna og ungmenna eiga að njóta forgangs í allri stefnumörkun ríkisins. Aukinn áróður í formi áfengisauglýsinga og aukið aðgengi að áfengi gengur gegn því sjónarmiði.“

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

bryndis@bb.is

 

Auglýsing

Landsel fækkar mikið

Niðurstöður úr landselatalningu Hafrannsóknarstofnunar árið 2016 gefa til kynna að fækkun hafi átt sér stað í stofni landsela á Íslandi. Stofninn er nú 77% minni en þegar hann var fyrst metinn árið 1980 og 32% minni en árið 2011, þegar stofnstærðarmat yfir alla strandlengju landsins var síðast framkvæmt. Taldir voru samtals 3.383 selir á allri strandlengju landsins úr Cessna 207 og er út frá því metið að áætluð stofnstærð sé 7.652 selir. Samkvæmt stjórnunarmarkmiðum íslenska landselsstofnsins skal halda stofninum í 12.000 selum en niðurstöður gefa til kynna að hann sé nú um 36% minni en sem því nemur.

Samkvæmt verndarflokkun International Union for the Conservation of Nature (IUCN) er því landselurinn talinn í útrýmingarhættu. Lítið er vitað um mögulega orsakaþætti fækkunarinnar en í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar er sagt líklegt að meðafli í fiskveiðum og beinar selveiðar hafi getað höggvið djúp skörð í stofninn. Segir þar jafnframt að sökum þess hversu mikil fækkun virðist nú eiga sér stað sé sérstaklega mikilvægt að meta mögulega orsakaþætti í nákominni framtíð.

annska@bb.is

Auglýsing

Bjartviðri í dag

Það verður austlæg átt 3-8 m/s á Vestfjörðum í dag og víða bjart veður. Það þykknar upp í kvöld og á morgun verður austan- og norðaustanátt 5-10 m/s og snjókoma með köflum. Áfram verður kalt í veðri og verður frost frá frostmarki að 8 stigum. Veðurhorfur fyrir landið á sunnudag kveða á um norðaustan 10-15 m/s norðan- og austanlands með snjókomu eða éljum og frosti á bilinu 1 til 5 stig. Mun hægari vindur á Suður- og Suðvesturlandi, bjart með köflum og hiti um frostmark að deginum.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er allvíða á vegum á Vestfjörðum og eitthvað um éljagang.

annska@bb.is

Auglýsing

Jakob Valgeir með þriðja stærsta krókakvótann

Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík ræður yfir þriðja mesta krókakvótanum á landinu samkvæmt nýjum tölum frá Fiskistofu. Aflahlutdeild Jakobs Valgeirs er 4,13% eða rúmlega 1.800 tonn. Salting ehf., sem gerir út línubátinn Fríðu Dagmar ÍS frá Bolungarvík ræður yfir 4,11% af krókakvótanum, eða tæplega 1.800 tonn sem gerir útgerðina þá fjórðu kvótahæstu. Þórsberg ehf. á Tálknafirði sem gerir út Indriða Kristjáns BA er í níunda sæti listans, en aflahlutdeild fyrirtækisins er 2,9%, eða tæp 1.300 tonn. Bolvíska útgerðin Blakknes ehf. sem gerir út Einar Hálfdáns ÍS er í 12. sæti listans með 2,25% aflahlutdeild, eða tæp 1.000 þorskígildistonn.

Þegar skoðuð er krókaaflahlutdeild útgerða þá eru þar nokkrar breytingar á stærstu útgerðunum. Hjálmar ehf. á Fáskrúðsfirði er stærst með 4,3% hlutdeilda og síðan Grunnur ehf. í Hafnarfirði og Jakob Valgeir í Bolungarvík með um 4,1% hvor útgerð. Stakkavík í Grindavík sem verið hefur stærst í krókaaflahlutdeildum mörg undanfarin ár er nú 6. sæti á listanum,

Heildarkrókaaflahlutdeild einstakra eða tengdra aðila má ekki fara yfir 5% af samanlögðu heildarverðmæti krókaaflahlutdeilda. Þá má krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 4% í þorski og 5% í ýsu.

smari@bb.is

Auglýsing

Fataverslun dregst saman

Velta fataverslana var 12,4 prósentum minni í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Á því tólf mánaða tímabili lækkaði aftur á móti verð á fötum um 7,3 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar. Í henni segir að velta í dagvöruverslun hafi aukist jafnt og þétt í febrúar og verið þremur prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra. Velta áfengisverslunar jókst þá einnig eða um átta prósent. „Þess ber að geta að fataverslunum hér á landi hefur farið fækkandi frá áramótum, en það er mikilvægur hluti skýringarinnar,“ segir í tilkynningunni og þar tekið fram að skóverslun jókst um 23,7 prósent í febrúar.

smari@bb.is

Auglýsing

Sjötti hver lögreglumaður slasast

Álag og fjölgun slysa hjá lögreglu var umfjöllunarefni sameiginlegrar ráðstefnu Vinnueftirlitsins, Ríkislögreglustjóra, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Landssambands lögreglumanna og dómsmálaráðuneytisins sem haldin var á miðvikudag og greint var frá í Morgunblaðinu. Fram kom í erindi Guðmundar Kjerúlf frá Vinnueftirlitinu að á árunum 2005 til 2009 hefðu starfað tæplega700 lögreglumenn á Íslandi, en þeir hefðu verið um 650 á árunum 2010 til 2015. Færa mætti rök fyrir því að álag á lögregluna hefði aukist síðustu ár m.a. vegna þess að ferðamönnum hefði fjölgað mikið. Þeir hefðu verið innan við 400 þúsund árið 2005 en tæplega 1,8 milljónir í fyrra.

Á árunum fyrir hrun hefði verið algengast að starfsfólk í byggingariðnaði og fiskvinnslu slasaðist. Á árunum eftir hrun væri hins vegar algengast að lögreglumenn slösuðust. Um það bil sjötti hver lögreglumaður yrði fyrir tilkynningarskyldu vinnuslysi árlega en tuttugasti og fimmti hver starfsmaður í fiskvinnslu og áttugasti hver í byggingarvinnu.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir