Landsel fækkar mikið

Niðurstöður úr landselatalningu Hafrannsóknarstofnunar árið 2016 gefa til kynna að fækkun hafi átt sér stað í stofni landsela á Íslandi. Stofninn er nú 77% minni en þegar hann var fyrst metinn árið 1980 og 32% minni en árið 2011, þegar stofnstærðarmat yfir alla strandlengju landsins var síðast framkvæmt. Taldir voru samtals 3.383 selir á allri strandlengju landsins úr Cessna 207 og er út frá því metið að áætluð stofnstærð sé 7.652 selir. Samkvæmt stjórnunarmarkmiðum íslenska landselsstofnsins skal halda stofninum í 12.000 selum en niðurstöður gefa til kynna að hann sé nú um 36% minni en sem því nemur.

Samkvæmt verndarflokkun International Union for the Conservation of Nature (IUCN) er því landselurinn talinn í útrýmingarhættu. Lítið er vitað um mögulega orsakaþætti fækkunarinnar en í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar er sagt líklegt að meðafli í fiskveiðum og beinar selveiðar hafi getað höggvið djúp skörð í stofninn. Segir þar jafnframt að sökum þess hversu mikil fækkun virðist nú eiga sér stað sé sérstaklega mikilvægt að meta mögulega orsakaþætti í nákominni framtíð.

annska@bb.is

DEILA