Um næstu helgi fer fram alþjóðlegt skíðamót í skíðagöngu á Ísafirði, svokallað FIS mót. Í raun er þetta bara hefðbundið bikarmót Skíðasambands Íslands en frá því í fyrra hafa þau verið alþjóðleg og eftirlitsmaður frá Alþjóðaskíðasambandinu (FIS) er viðstaddur mótið og tekur það út og keppendur fá FIS-stig sem eru notuð til að raða á heimslista.
Nú styttist í að vetrarolympíuleikarnir í PyeongChang í Suður-Kóreu hefjist, en þeir byrja 9. febrúar.
Skíðamenn eru í óða önn að reyna við Ólympíulágmörkin og um næstu helgi lokast sá gluggi, ætli menn sér að ná lágmörkununum fyrir leikana í Suður-Kóreu. Tveir keppendur á þessum buxunum hafa skráð sig á bikarmótið á Ísafirði og koma þeir um langan veg og frá löndum sem ekki eru þekkt fyrir skíðaiðkun. Annar er frá Mexikó og hinn er frá Karíbahafseyríkinu Trínidad og Tóbagó.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að sækja um 800 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Megnið af láninu, eða 560 milljónir króna, verður ráðstafað í uppgjör Ísafjarðarbæjar vegna breyting á A deild lífeyrissjóðsins Brúar. Afgangurinn, 240 milljónir króna, verður nýttur framkvæmdir sem farið verður í á fyrstu 6 mánuðum ársins og þar má nefna gatnagerð, skólalóðir, hafnarframkvæmdir, íþróttamannvirki.
Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga er lífeyrissjóður fyrir fólk sem starfar hjá sveitarfélögunum. Hann hét áður Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga en skipt var um heiti sjóðsins í júní 2016.
Sjóðurinn er ekki sjálfbær og glímir við uppsafnaðan vanda.og þurfa sveitarfélögin að greiða 40 milljarða króna til sjóðsins til að rétta hann af og hlutur Ísafjarðarbæjar er eins og áður segir 560 milljónir króna. Langtímaávöxtun sjóðsins hefur ekki náð 3,5% viðmiði og halli A deildar sjóðsins er yfir þeim vikmörkum sem fram koma í lífeyrissjóðslögum.
Veðurstofan hefur lýst yfir óvssustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Í tilkynningu seir að töluvert snjóaði í norðvestanátt aðfaranótt mánudags. Snjóflóð féllu á vegina um Súðavíkurhlíð, Gemlufallsheiði og í Súgandafirði. Það verður hægari norðanátt og úrkomuminna í dag en gengur í norðvestan hvassviðri eða storm með snjókomu í fyrramálið. Ekki er talin hætta í byggð að svo stöddu en fylgst er með aðstæðum.
Á miðvikudagskvöld 17. janúar verða 2. áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á yfirstandandi starfsári. Á tónleikunum koma fram Ásdís Valdimarsdóttir víóluleikari og hollenski pianoleikarinn Marcel Worms. Á dagskránni eru verk eftir Felix Mendelssohn, Dmitri Shostakovich, Mieczyslaw Weinberg og Dick Kattenburg.
Ásdís er í hópi fremstu tónlistarmanna íslenskra en hefur að mestu starfað erlendis. Hún stundaði m.a. nám í Juilliard-tónlistarháskólanum og síðar í Evrópu. Ásdís hefur leikið einleik m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands en þó lagt mesta áhersla á þátttöku í kammertónlistarflutningi og starfað með mörgum þekktum kammertónlistarhópum. Hún er nú búsett í Hollandi og hefur að undanförnu unnið mikið með hinum þekkta píanóleikara Marcel Worms. Hann hefur komið fram víðs vegar um heiminn, leikur afar fjölbreytta tónlist og hefur gefið út fjölmarga hljómdiska.
Tónleikar þeirra Ásdísar og Marcels verða í Hömrum miðvikudagskvöldið 17.janúar og gefjast kl 20;00. Áskriftarkort félagsins gilda á tónleikana, en einnig er seldur aðgangur við innganginn. Miðaverð er kr. 3.000, en kr. 2.000 fyrir eldri borgara og öryrkja, en ókeypis er fyrir skólafólk 20 ára og yngri.
Veðurstofan spáir norðvestanátt á Vestfjörðum í dag, 15-20 m/s og snjókoma. Síðdegis er spáð 8-15 m/s og stöku él og vægu frosti. Hvassast nyrst á Vestfjörðum. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að nú er lægðin sem fór yfir landið í gær komin að norðurströndinni aftur því hafi hvesst fyrir norðan land aftur með aukinni úrkomu. Sunnantil á landinu er norðvestanáttin óðum að taka yfir eftir suðvestannáttina enda kominn mun minni vindur og úrkoma. Lægðin margumrædda hefur ekki lokið sér af með okkur ennþá því að í dag kemur hún inná norðurland og færist síðan til austurs. Í nótt færir hún sig síðan aftur norður fyrir land og því hvessir aftur með ofankomu fyrir norðan á morgun. Eins er útlit að hvessi með ofankomu um allt vestanvert landið um tíma á morgun og því gott að fylgjast vel með spám því minniháttar breytingar á staðsetningu lægðarinnar getur haft miklar breyringar í för með sér hvar veður verður vont á hverjum tíma.
Færð á vegum
Vegurinn um Súðavíkurhlíð er lokaður vegna snjóflóðahættu. Á Vestfjörðum er þæfingsfærð og skafrenningur á Gemlufallsheið, Hálfdán og Mikladal. Ófært er í Súgandafirði og á flestum öðrum fjallvegum.
Tilkynning barst um snjóflóð á Súðavíkurhlíð kl. 5.30 í morgun. Vegagerðin var strax látin vita af snjóflóðinu og í framhaldinu var veginum um Súðavíkurhlíð lokað. Fylgst verður með stöðu mála í dag en áfram er spáð norðvestanátt og ofankomu. Veginum um Súðavíkurhlíð hefur í tvígang verið lokað vegna snjóflóðahættu það sem af er ári.
Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi og sex veiðiréttarhafar í við Ísafjarðardjúp hafa kært útgáfu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi fyrir Arctic Sea Farm. Stofnunin gaf út leyfi fyrir 4.000 tonna ársframleiðslu á laxi og regnbogasilungi í sjókvíum í Dýrafirði. RÚV greindi frá þessu fyrir helgi.
Umhverfisstofnun gaf út 4.000 tonna starfsleyfi í lok nóvember og er um að ræða 2.000 tonna stækkun á fyrra leyfi Arctic Sea Farm. Að mati Skipulagsstofnunar var stækkun leyfisins ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Í frétt RÚV kemur fram að kærendur segjast eiga mikilla hagsmuna að gæta af því að lífríki í átta ám verði ekki stefnt í hættu með lúsafári og mengun frá erlendum og framandi regnbogasilungi eða norskum kynbættum eldislaxi. Kærendur óttast að eldisfiskurinn dreifi sér í veiðiár allt í kringum landið auk þess sem eldið valdi stórfelldri saur- og fóðurleifamengun í nágrenni eldiskvínna.
Erla Björg Ástvaldsdóttir, Vestfirðingur ársins 2017.
Dýrfirðingurinn Erla Björg Ástvaldsdóttir er Vestfirðingur ársins árið 2017 að mati lesenda bb.is. Kannski eru einhverjir sem kannast ekki við nafnið, eða hvað hún kann að hafa sér til frægðar unnið, því ekki fara öll afrek mannanna hátt. Þrátt fyrir að samfélagsmiðlar sendi okkur í mun meiri mæli en áður sögur af því sem gerist í hinu venjubundna lífi eru enn sögur sem við ekki heyrum. Það er þó fólk sem vissi af hetjudáð Erlu og kaus hana Vestfirðing ársins með afgerandi kosningu.
Erla Björg býr í Neðri Hjarðardal í Dýrafirði ásamt eiginmanni sínum Karli Andrési Bjarnasyni. Í fyrravor, mitt í annasömu lífi bænda, miðjum sauðburði, bjargaði Erla lífi eiginmanns síns. Ein á bænum, hnoðaði hún og blés hátt í hálftíma til að viðhalda lífi hans. Athugasemdirnar sem skrifaðar voru með kosningunni tæptu allar á þessu afreki með einum eða öðrum hætti. Ein sagði einfaldlega Hún bjargaði mannslífi. Þessi þrjú orð vitna um eitthvað stórbrotið. Að bjarga mannslífi og að gefast ekki upp þó útlitið kunni að virðast svartasta svart.
Karl og Erla Björg.
Erla Björg ólst upp á Þingeyri og hefur alla tíð búið í Dýrafirði. Hún fluttist í Neðri Hjarðardal árið 1986 með Karli og hefur búið þar síðan. Þau eiga saman tvær dætur, Marý og Blómeyju Ósk og eiga nú orðið fimm barnabörn. Erla er deildarstjóri á dvalarheimilinu Tjörn á Þingeyri og hefur hún unnið þar allann sinn starfsaldur og grínast með að hún hafi unnið þar svo lengi að bráðum verði hún löggildur vistmaður.
Ég ek yfir í Dýrafjörð á milli lægða. Merkilegt hvernig þær virðast herja ólíkt á firðina sem kúra þó svo nálægt hverjum öðrum. Kafsnjór þegar ég held heiman frá mér í Skutulsfirði, allt hvítt þegar ég renni í gegnum Önundarfjörðinn. Síðan, á einum fallegasta stað Vestfjarða, þegar Dýrafjörður með vestfirsku Alpana sem kórónu sína blasir við ofan af Gemlufallsheiði, var zebra-mynstrið allsráðandi og þegar neðar í fjörðinn var komið, nánast auð tún.
Skall niður í hjartastoppi
Það er líf og fjör á heimilinu þegar blaðamann ber að garði. Marý, eldri dóttir hjónanna, er í heimsókn með börnin sín fjögur. Húsmóðirin tekur hlýlega á móti mér og við setjumst inn í borðstofu. Eftir stutt spjall um heima og geima leiðum talið að deginum örlagaríka:
„Það var í byrjun sauðburðar og við vorum búin að plana nóttina, hver átti vakt hvenær og svoleiðis. Klukkan tvö ýti ég við Karli, sem ég þurfti nú yfirleitt ekki að gera og spyr hann hvort hann vilji að ég fari út. Þá drífur hann sig af stað út í fjárhús. Um sjö fer ég að undirbúa daginn og þá er hann sofandi. Ég vek hann því við ætluðum að taka inn rúllu í sameiningu. Hann fer á fætur og ég held áfram að undirbúa morgunmatinn og er rétt búin að setja brauð í ristina, þegar ég heyri svakalegt högg. Ég stekk fram og sé að Karl hefur skollið í gólfið. Ég fer að stumra yfir honum, en næ engu sambandi við hann og gat ekki fundið neinn púls. Ég hringi þá strax í 112, því ég taldi að hann væri í hjartastoppi. Konan í símanum spyr út í hvernig staðan sé og ég segi að það komi skrítin hljóð úr honum og ég finni engan púls. Hún bað mig um að láta símtólið við munninn á honum og segir svo: Þetta er ekki eðlilegt, þú verður að byrja að hnoða strax.
Ég byrja að hnoða og hún hefur eflaust farið sína leið að kalla út sjúkrabílinn. Ég hnoðaði í heillangan tíma, en ég gerði mér enga grein fyrir hvað tímanum leið. Ég fór bara í mína vinnu – blés og hnoðaði. Á endanum þegar mig var farið að lengja eftir sjúkrabílnum spyr ég: Hvað er sjúkrabíllinn eiginlega, fer hann ekki að koma? Þá segir hún mér að hún nái ekki í neinn á Þingeyri og þá lét ég nokkur orð falla sem ég ætla nú ekki að hafa eftir hérna. Þá spyr konan mig hvort það séu einhverjir í kring um mig sem hún geti haft samband við og ég bendi á Steina og Eddu hérna í Hjarðardal og svo hélt ég bara áfram við mína vinnu. Hún segir mér svo að þau séu á leiðinni og hún hafi líka kallað út björgunarteymi.
Á þessum tímapunkti var ég hætt að ná að opna munninn á Karli. Það var eins og hann væri allur að frjósa. Ég segi konunni í símanum það og hún segir að þá verði ég bara að halda áfram að hnoða. Ég spyr þá hvort að ég megi ekki blása í gegnum nefið, því mér fannst að ég yrði að koma súrefni í hann. Hún segir það í góðu lagi ef ég treysti mér til þess, svo ég gerði það og ég hélt áfram að hnoða og blása í gegnum nefið. Ég hef ekki hugmynd um hvað langur tími hafði liðið og hef ekki reynt að fá svör við því, en mér skilst að það hafi í það minnsta verið 20 mínútur. Síðan koma Steini og Edda og hann fór að hnoða og ég hélt áfram að blása. Síðan kom Sighvatur á Höfða og hann fór að hnoða og Steini að blása. Þeir reyndu að opna fyrir öndunina aftur en það gekk ekki svo það var haldið áfram að blása í gegnum nefið.“
Ekki hægt að manna sjúkrabílinn
Ekki gekk að manna sjúkrabílinn á Þingeyri, svo fyrstir á vettvang voru lögreglumenn frá Ísafirði.
„Ég pirra mig á þessu enn í dag“ segir Erla. „Við eigum ekki að þurfa að lifa við þetta óöryggi. Í þessu tilfelli var hægt að fá mann til að keyra bílinn en engann til að vera aftan í. Þetta á ekki að þurfa að gerast og það á að vera hægt að svara því strax hvort hægt sé að manna bílinn eða ekki. Það er stuðtæki í bílnum og mér finnst lágmark að koma því á staðinn þegar svona er. Þegar lögreglan kom á staðinn var hún með stuðtæki í bílnum og þegar hann var stuðaður í þriðja sinn, náðu þeir púls. Þegar þeir byrjuðu að stuða hann fór ég afsíðis, ég gat ekki meir og leyfði þeim bara alveg að taka við. Fljótlega kom svo sjúkrabíllinn á staðinn, þeir voru mjög fljótir yfir og mega alveg eiga það að hafa sýnt skjót viðbrögð. Ég keyrði svo á eftir þeim á Ísafjörð, eftir að hafa fengið fólk til að leysa mig af í sauðburðinum.“
Mæðgurnar segja mér að í kjölfarið á þessu atviki hafi verklagsreglum vegna útkalla fyrir Dýrafjörð verið breytt og nú sé alltaf hringt á sjúkrabíl á Ísafirði.
Karl var í framhaldinu sendur suður með sjúkraflugi og fór Marý dóttir hans með honum. Það er ekki einfalt mál fyrir bændur að fara af bæ yfir hábjargræðistímann og taldi Erla sér ómögulegt að fylgja manni sínum suður þar sem í nægu var að snúast í sauðburðinum. Strax um kvöldið byrjuðu ættingjar að mæta til að leggja fram aðstoð sína og daginn eftir var tvíburasystir hennar sem búsett er á Patreksfirði mætt á staðinn.
Best þegar hann fór aftur að brúka munn
–Hvað fór í gegnum huga þér í þessu öllu saman?
„Ég veit það hreinlega ekki. Ég vakna stundum enn upp á nóttunni og hlusta, bara til að vera viss um að hann sé enn þarna. Ég leyfði mér aldrei að hugsa þetta alla leið og sökkti mér í verkin sem þurfti að vinna. En auðvitað var maður smeykur. Þetta var svo langur tími og ég var ekkert viss um að hann kæmi aftur ef ég á að segja alveg eins og er. Allavega ekki alveg óskaddaður. Mér fannst ég þurfa að gera svo margt hér heima og vissi að hann væri í góðum höndum hjá Marý, en systir mín sagðist ekki hlusta á þetta og ég færi suður! Ég er voða þakklát í dag. Mér leið betur að vera fyrir sunnan hjá honum. Þegar ég var enn heima heyrði ég í lækninum fyrir sunnan og þá hafði Karl farið í tvö hjartastopp til viðbótar. Hann sagði bara að það væri betra að ég kæmi suður, Marý ætti ekki að þurfa að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir ein. Ég er líka þakklát fyrir að drífa mig suður til að leggja ekki meira á hana.“ Marý skýtur inn í að þetta hafi nú ekki verið alslæmt og hún hafi nú haft við hlið sér hinn helminginn af pabba sínum – tvíburabróður hans.
„Ég var fyrir sunnan í viku og var þarna þegar hann vaknaði. Mér var boðin áfallahjálp á sjúkrahúsinu, bæði af djákna og sjúkrateymi. Mér fannst ég ekki þurfa þess, en þær sögðu að ég mætti koma og tala við þau hvenær sem væri. Svo ég get ekki annað sagt að en að mér hafi verið boðin aðstoð eftir þetta áfall. Ég hef alltaf sagt að það voru mín verðlaun að hann vaknaði, síðan að hann gæti hreyft hendurnar. Þegar hann var svo farin að geta brúkað munn þá var þetta komið! Að vita til þess að það var ekkert sem skemmdist. Ég hugsa að það hafi nú einhver verið með mér þarna um morguninn að hjálpa mér.“
Þrátt fyrir að hafa allan sinn vinnualdur unnið á öldrunarheimili hefur Erla aldrei þurft að beita hjartahnoði áður en hún þakkar fyrir að hafa setið reglulega námskeið í skyndihjálp á vegum vinnunnar: „Mig grunaði samt ekki að ég þyrfti þó í raun einhverntíman að nota þetta og hvað þá að standa ein í þessu. Sumir hafa spurt hvernig ég hafi farið að þessu svona ein. En hvað er hægt að gera þegar ekki er hægt að stóla á einhvern annan? Ég varð bara að gera þetta. Það er bara svoleiðis.“
Erla hvetur alla til að læra fyrstu hjálp, það geti virkilega skipt sköpum og bjargað mannslífum:
„Farið öll á skyndihjálparnámskeið! Ekki hafa áhyggjur af því að kunna þetta ekki þegar á reynir, þetta fer inn í minnið. Það er nú gaman að segja frá því að maðurinn minn gaf mér stundum illt auga á spítalanum þegar hann var að velta því fyrir sér afhverju honum væri svona illt í bringunni.“
Þrátt fyrir bringueymsli Karls, þá hrósuðu læknarnir Erlu í hástert fyrir og sögðu það ansi gott að hann væri með öll rifin heil eftir svona mikið hnoð, það væri sannarlega ekki sjálfssagt. Einn þeirra sagði þegar hann kom á vakt: Hvar er hún sem hnoðaði? Ég vil sjá þessa konu!
Ekkert hefur komið í ljós hvað var þess valdandi að Karl fór í hjartastopp. Hann var með hreinar kransæðar, hrein lungu og engin ör á hjartanu. Blóðprufur sem teknar voru þegar hann kom á spítalann sýndu ekki að hann hefði farið í hjartastopp. Sýni voru send til Svíþjóðar til að reyna að fá einhver svör, en allt kom fyrir ekki og er þetta enn ráðgáta. Það var þó settur í hann bjargráður sem sér til þess að koma hjartanu aftur í gang ef það stoppar aftur.
Dráttarvél að launum
–Það er mér alveg ljóst að þessi lífsreynsla hefur haft mikil áhrif á Erlu og fjölskyldu hennar, en hún horfir þakklát um öxl:
„Þetta er nú lífsreynsla að fara í gegnum og ég er svo innilega þakklát öllum þeim sem komu að þessu með einum eða öðrum hætti og öllum þeim sem hjálpuðu í kjölfarið, að vera ekki ein í þessu. Ég veit ekki hvað ég hefði gert ef þetta hefði farið á versta veg, þannig að við vorum bara heppin. Ég fékk jólagjöfina mína snemma þetta árið, að fá minn mann til baka. Ég hef líka grínast með það að ég hafi haft nógu mikið fyrir því að næla í þennan bónda minn, svo ég ætla ekki að sleppa honum svo auðveldlega frá mér aftur.
Ég vil gjarnan nota þetta tækifæri og þakka öllum sem hjálpuðu okkur, ég á ekki orð yfir hvað allir voru tilbúnir að hjálpa. Ég get svo svarið það að við hefðum getað sett mann á hverja rollu í sauðburðinum, svo margir voru tilbúnir að rétta okkur hjálparhönd. Það snerti mig virkilega. Svo var fullt af fólki að hjálpa okkur í heyskapnum og við að smala. Ég er virkilega þakklát hverjum og einum.“
Erla Björg og Karl með Marý (fyrir aftan þau fyrir miðju) og börnum hennar fjórum, Rósbjörgu Eddu, Þóri Karli, Þórði Atla, og Kristni Ísaki.
Karl hefur verið við merkilega góða heilsu frá því hann kom aftur heim og segir Erla að það hafi komið öllum á óvart hversu hratt og vel hann náði sér og segir það augjóst að hans tími væri ekki kominn. Marý segir að útlitið hafi verið það svart að ekki hafi endilega verið búist við því að hann kæmi lifandi til baka eftir að hafa farið suður með sjúkraflugvélinni.
Karl er á vappi um húsið og ég get ekki stillt mig um að spyrja hann hvort hann muni eitthvað eftir þessu?
„Nei, ég man ekkert eftir þessu. Ekki einu sinni eftir því að hafa farið í fjárhúsin um nóttina. Ég tapaði alveg fimm dögum á síðasta ári. Fyrsta sem ég man eftir mér er þegar ég var kominn upp á hjartadeildina á Landspítalanum.“ Erla bætir inn í: „Hann man ekki einu sinni eftir því að hafa gefið mér dráttarvélina sína!“ Sem vekur mikil hlátrasköll við borðið.
„Læknirinn sagði: Nú verður þú að gera eitthvað sætt fyrir konuna þína og gefa henni eitthvað fallegt. Karl hugsaði sig um og sagði svo: Ég gef henni dráttarvélina mína, og bætir svo við…ég á hvort sem er eftir að borga hana! Þá sprungu allir úr hlátri og á þessari stundu áttaði ég mig á að hann væri kominn til baka.“
Lífið breytingum háð
Erla og Karl hafa verið saman frá unga aldri og það er skondið að segja frá því að þau eru bæði tvíburar – og komu bæði í heiminn sitjandi segir Erla hlæjandi. Kannski voru örlög þeirra einhversstaðar skrifuð í skýin. Þrátt fyrir einungis tveggja ára aldursmun tvíburanna tveggja í sama firði, þá lágu leiðir þeirra Erlu og Karls þó ekki saman fyrr en að skólagöngu lokinni. Erla minnist með hlýju hestamannaballsins á Þingeyri þar sem þau kynntust fyrst og segir að í þá daga hafi verið gaman að lifa á Þingeyri – og félagslífið í miklum blóma.
Eftir áfallið síðasta vor, þá ákváðu þau hjónin að hætta búskap. Þau höfðu bæði unnið meðfram búskapnum og nú var tími til kominn að draga úr álaginu. Þau settu jörðina á sölu síðasta sumar:
„Við settum allt á sölu og vorum að vonast til að einhver myndi vilja kaupa jörð með öllu, einhver sem væri tilbúinn að fara út í búskap. En það gekk ekki eftir, landbúnaðurinn ekki svo glæsilegur í dag. Þess vegna fórum við þá leið að slátra öllu í haust. Heilsan er meira virði en að berjast í þessu.“
Þau voru með um fjögur hundruð fjár og Erla segir með þunga í röddinni að það hafi verið erfitt að horfa á eftir bílnum úr hlaði. Hún segir þó að eftir á sé henni létt, lífið sé einfaldara að vera ekki bæði í búskap og vinnu utan heimilis og hafi þau í hyggju að flytja á Þingeyri þegar að jörðin selst.
Á borðið eru bornar dýrindis kræsingar og áfram halda fjörugar samræður um lífsins gagn og nauðsynjar. Það er gleði og gaman og það er auðvelt að sjá að lífsgleðin er fjölskyldunni í blóð borin. Hér má gera grín og hér tekur enginn sig of hátíðlega, eins og kom glöggt í ljós þegar við vorum að tala um hvað það var mikið lán að ekkert hafi skemmst í höfðinu á Karli við áfallið. Þá heyrist í honum: „Það var nú ekkert til að skemma.“
Vatnsaflsvirkjanir Orkubúsins framleiddu á árinu 2017 rúmlega 95 GWst, sem er met í 40 ára sögu fyrirtækisins. Síðasta ár var samt ekki afgerandi gott vatnsár, heldur er þetta vegna meiri aflgetu, sem felst í nýjum túrbínum. Þetta kemur fram í pistli Sölva Sólbergssonar, framkvæmdastjóra orkusviðs Orkubúsins á vef OV. Sölvi nefnir til dæmis að fyrir rúmu ári lauk uppsetningu á nýrri vél í Mjólká I haustið 2016.
Nú er endurnýjun gömlu vélanna lokið í Mjólká. Mjólká II var endurnýjuð 2011 og Mjólká III, sem var ný virkjun frá grunni, byggð 2010. Meðaltal síðustu 10 ára fyrir 2011 í Mjólká var 61 GWst, en 2017 var framleiðsla virkjunarinnar 73 GWst. Aflið er nú 11,2 MW en var 8,1 MW. Samanburður á framleiðslu fyrri ára segir því ekki alla söguna.
Fossárvirkjun er annað dæmi um vélaendurnýjun. Nýrri vél var komið fyrir í nýju stöðvarhúsi haustið 2015 og framleiðslan var 5,7 GWst 2016 og 5 GWst 2017. Afl vélarinnar nú 1.200 kW í stað 600 kW áður. Vatnsbúskapurinn, sem er innrennslið í Fossavatn, gaf ekki tilefni til að tvöfalda vélastærðina, en lónið er það stórt að í bilanatilvikum í raforkukerfinu nýttist þetta aukna afl sem varaafl. Þannig gagnast vélin vel til að spara olíu í eldsneytisstöðvum á svæðinu. Meðaltal gömlu vélarinnar á árunum fyrir 2015 var tæpar 4 GWst/ári.
Ós Hvalár í Ófeigsfirði. Mynd: Mats Wibe Lund. Myndin tengist fréttinni ekki.
Í yfirlýsingu VesturVerks segir að aukin orkuframleiðsla á svæðinu sé forsenda fyrir auknu raforkuöryggi í fjórðungnum og að undir það taki Landsnet, Orkubú Vestfjarða og Fjórðungssamband Vestfirðinga fyrir hönd vestfirskra sveitarfélaga. „Því nær sem orkuuppsprettan er notandanum því öruggari er tengingin til notandans vegna styttri flutningsleiða,“ segir í í yfirlýsingu Vesturverks.
Um skýrsluna segir í yfirlýsingu Vesturverks:
„Í skýrslunni er einvörðungu lagt mat á raforkuöryggi út frá tveimur ólíkum kostum í flutningi á raforku – með loftlínum eða með jarðstrengjum. Ekkert mat er lagt á virkjanakosti á Vestfjörðum eða fyrirætlanir VesturVerks um flutning raforku frá Hvalárvirkjun. Hvergi er minnst á með hvaða hætti Hvalárvirkjun mun tengjast flutningskerfi Landsnets. Skýrsluhöfundur nefnir Hvalárvirkjun einungis í einni málsgrein í inngangi skýrslunnar og setur þar fram þá skoðun sína að með loftlínum muni Hvalárvirkjun litlu bæta við raforkuöryggi svæðisins. Þessi skoðun er ekki frekar rökstudd og ekkert efnislegt mat lagt á getu Hvalárvirkjunar til að tryggja raforku til Vestfirðinga.“
Hvalárvirkjun verður tengd með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði yfir í tengimannvirki við Ísafjarðardjúp. Meðal valkosta er að flytja orkuna þaðan með sæstreng yfir Ísafjarðardjúp og leggur Fjórðungssamband Vestfirðinga áherslu á þá leið. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa gert þá kröfu að Vestfirðir verði hringtengdir í gegnum nýjan afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi með tengingu til Kollafjarðar og til Ísafjarðar. „Sú sviðsmynd er ekki skoðuð í skýrslunni,“ segir í yfirlýsingu Vesturverks.
Kostnaður við lagningu tæplega 200 km rafstrengs í jörðu er í skýrslunni áætlaður um 20 milljarðar íslenskra króna. Engar nýjar tekjur munu hljótast af því einu og sér að leggja raflagnir Landsnets og Orkubús Vestfjarða í jörðu og að mati Vesturverks er vandséð að sá kostnaður verði greiddur af öðrum en hinu opinbera.