Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 1834

Ísafjörður: einangrun knattspyrnuhússins kostar 100 mkr

Hugmynd að fjölnota íþróttahúsi.

Stofnkostaður á 2.970 fermetra íþróttahúsi knattspyrnuhúsi óeinangruðu er 506 milljónir króna en 602 milljónir króna ef húsið er einangrað. Þetta kemur fram í úttekt Verkís fyrir nefnd um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss sem lögð var fram á fundi nefndarinnar á þriðjudaginn.

Þá er reiknað út hver heildarkostnaður kann að verða af stofnkostnaði og rekstri hússins í 80 ár. Ef húsið er einangrað og miðað við 10 gráðu hitastig er stofnkostnaðurinn 602 mkr og heildarkostnaðurinn 1.831 milljón króna. Sé húsið óeinangrað  verður stofnkostnaðurinn 506 mkr og heildarkostnaðurinn á líftíma hússin 1.770 milljónir króna.

Einnig eru gefnar upp tölur fyrir einangrað hús sem er hitað í 5 gráður. Þá er stofnkostnaðurinn áætlaður 597 milljónir króna og heildarkostnaður 1.789 milljónir króna.

Niðurstaða nefndarinnar var að fela tæknideild Ísafjarðarbæjar að óska eftir greiningu á kostnaði við byggingu óeinangraðs knattspyrnuhúss sem uppfyllir kröfur KSÍ, annarsvegar 46mX61m að innanmáli og hinsvegar 46mX70m.

Auglýsing

Tálknafjörður: byggðakvóti fjármagni dvalarheimili

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tók fyrir á fundi sínum í gær að ákveða reglur um úthlutun byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.

Samþykkt var tillaga með fjórum atkvæðum gegn einu um að falla frá vinnsluskyldu á byggðakvótanum, en skylt hefur verið að landa aflanum til vinnslu í Vestur Barðastrandarsýslu, gegn því að 20 kr af hverju kg byggðakvóta renni til sveitarfélagsins sem  fari í sérstakan sjóð, sem hugsaður er til uppbyggingar dvalarheimilis á Tálknafirði. Með þessu telur sveitarstjórn að byggðakvótinn komi að notum fyrir alla íbúa, þ.e.a.s. samfélagið í heild.

Fallist útgerðaraðilar ekki á þessa tilhögun verður áfram vinnsluskylda eins og verið hefur. Auk þessarar samþykktar um gjaldtökuna leggur sveitarstjónin til að landa verði aflanum í Tálknafjarðarhöfn og að hluti byggðakvótans skiptist jafnt milli allra báta.

Rökstuðningur meirihluti sveitarstjórnar, lista óháðra,  fyrir þessu fyrirkomulagi varðandi gjaldtökuna  er:

„Fallið verði frá vinnsluskyldu afla skv. úthlutuðum byggðakvóta, að því gefnu að allir
útgerðaraðilar, sem fá úthlutaðan byggðakvóta, fallist á að greiða kr. 20.00 af hverju
þorskkílói, sem landað er af úthlutuðum byggðakvóta. Þessir peningar fari í sérstakan
sjóð, sem hugsaður er til uppbyggingar dvalarheimilis á Tálknafirði. Sveitarstjórn telur
að með því að byggja upp dvalarheimili á staðnum sé stuðlað að því að fólk sem ekki
getur lengur haldið heimili þurfi ekki að flytja burt úr sveitarfélaginu, annaðhvort til
Reykjavíkur eða á sjúkrahúsið á Patreksfirði, sem er eina úrræðið á svæðinu. Ennfremur
er augljóst að með þessu skapast fjölmörg störf sem gæti þýtt fjölgun í sveitarfélaginu.
Með þessu telur sveitarstjórn að byggðakvótinn komi að notum fyrir alla íbúa, þ.e.a.s.
samfélagið í heild.“

Minnihluti hreppsnefndar, Jóhann Örn Hreiðarsson, fyrir hönd E lista, var ósammála þessari breytingu og greiddi atkvæði gegn henni. Segir í bókun hans að mótmælt sé því „að tengja framlög til dvalarheimilis við afnám vinnsluskyldu á byggðakvóta Tálknafjarðarhrepps. Slík tenging þýðir auknar álögur á útgerðir sem nú þegar eru að greiða háar upphæðir í auðlindagjöld til ríkisins.“ Segir ennfremur að þessi afstaða meirihlutans lýsi algeru skilningsleysi á mikilvægi byggðakvóta fyrir afkomu minni útgerða og lýst yfir alvarlegum áhyggjum af atvinnumálum í sveitarfélaginu.

Auglýsing

Krónan veiktist um 6,4% í fyrra

Krónan veiktist í fyrra um 6,4%. Þetta er annað árið í röð sem krónan veikist gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Árið 2017 veiktist krónan um 0,7%.  Þessar upplýsingar koma fram í Hagsjá, rafrænu fréttabréfi sem hagdeild Landsbankans gefur út.  Síðustu fjögur árin þar á undan hafði krónan styrkst á hverju ári og styrktist hún um 18,4% yfir árið 2016. Það var mesta styrking krónunnar gagnvart viðskiptaveginni myntkörfu í íslenskri hagsögu.

Veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum

Gjaldmiðlar allra helstu viðskiptalanda okkar styrktust gagnvart íslensku krónunni á síðasta ári. Af einstökum gjaldmiðlum styrktist gengi japanska jensins mest gagnvart krónunni, eða um 13,9%. Styrking Bandaríkjadollars var næst mest, eða 11,4% en þar á eftir kom svissneski frankinn með 10,4% styrkingu. Minnst var styrking sænsku krónunnar (2,4%) og Kanadadollars (2,6%).

Raungengi krónunnar  enn hátt

Þrátt fyrir þessa lækkun á nafn- og raungengi er gengi krónunnar enn tiltölulega sterkt á mælikvarða raungengis sé horft aftur til ársins 1980. Síðan þá hefur raungengið verið lægra en það var í desember um 80% af tímabilinu.

Auglýsing

Hvalveiðar þjóðhagslega hagkvæmar

Niðurstaða Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er að hvalveiðar eru þjóðhagslega hagkvæmar. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir Atvinnuvegaráðuneytið.

Horft var bæði á kostnað og ábata af veiðunum fyrir þjóðarhag.  Meðal annars var stuðst við úttekt Hafrannsóknastofnunar, sem mat fæðuþörf hvala og vægi þeirra í lífríki sjávar hér við land, þar með talin áhrif þeirra á fiskistofna. Þá var einnig athuguð þýðing hvalaskoðunar og áhrif á ferðaþjónustu.

Minni hvalastofn þýðir auknar fiskveiðar

Sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar telja að  að fækkun hvala um 40% gæti leitt til tugmilljarða aukningar í útflutningsverðmæti Íslendinga á loðnu og þorski á ári. Afrán hvala við landið er talið verða 7,6 – 8,2 milljónir tonna af fiski, smokkfiski og ljósátu. Þar af er um 2,8 milljónir tonna af fiski. Það eru einkum langreyður, hrefa og hnúfubakur sem valda þessu.  Þannig er það mat sett fram að 40% minni langreyðarstofn gæti þýtt að útflutningstekjur af fiski myndu aukast um 2,4 milljarða króna á ári.

hvalveiðar hafa ekki skaðað ferðaþjónustuna

Um þetta segir í skýrslunni:

Gögn benda ekki til að hvalveiðar hafi slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf. Sér í lagi er ekki að finna marktækar vísbendingar um að hvalveiðar dragi úr ferðum útlendinga hingað að neinu ráði. Umhverfissamtök, sérstaklega Grænfriðungar, löttu fólk til að ferðast til Íslands á meðan Íslendingar veiddu hvali í vísindaskyni á seinni hluta 9. áratugar 20. aldar. En þrátt fyrir mikla herferð gegn Íslandi fjölgaði erlendum ferðamönnum hér um 34% frá 1986 til 1990, fjórum prósentum meira en í Bretlandi á sama tíma. Ekki þarf að rifja upp fjölgun erlendra ferðamanna eftir 2009.

hvalveiðar greiða há laun

Aðeins eitt fyrirtæki stundar hvalveiðar en fjölmörg hvalaskoðun og byggja viðskipti sín einum á erlendum ferðamönnum. Hvalur hf greiddi um 1,1 milljón króna á mánuði  í meðallaun en hvalaskoðunarfyrirtækin um 460 þúsund kr. Laun og launatengd gjöld allra hvalaskoðunarfyrirtækja á Íslandi námu 1.635 milljónum kr. á árinu 2017, en laun og launatengd gjöld Hvals hf. námu 1.034 milljónum króna. Fleiri vinna við hvalaskoðun en hjá Hval hf., en laun starfsmanna Hvals hf. eru mun hærri.

Hagkvæm nýting auðlinda

Í lokaorðum skýrslunnar er komist þessari niðurstöðu:

Með skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda og auknum milliríkjavíðskiptum tókst Íslendingum að fara úr því að vera með fátækustu þjóðum Evrópu og ná lífskjörum sem eru með því besta sem þekkist í veröldinni.
Þegar allt er skoðað virðast hvalveiðar vera hluti af hagkvæmri nýtingu náttúruauðlinda landsmanna. Hvalaskoðun er eðlileg nýting á náttúruauðlindum, engu síður en hvalveiðar.

 

Auglýsing

Krafa um þróun

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.

Í júní 2017 skilaði starfshópur um endurskoðun á framtíðarskipan byggðakvóta skýrslu og ýtarlegum tillögum um breytingar í meðferð byggðakvóta, hópnum var ætlað að endurskoða löggjöf og framkvæmd almenns  og sértæks byggðakvóta með tilliti til byggðafestuáhrifa og með það að markmiði að hámarka nýtingu þess hluta sem dregið er frá heildarafla og ráðstafað er til þessa tveggja þátta. Hópurinn var sammála um t.d. eftirfarandi forsendur:

  • Tryggja þarf sveigjanleika í ráðstöfun byggðakvóta til að mæta aðstæðum á hverjum stað og stuðla að fjölbreyttum lausnum á vanda minni sjávarbyggða, þ.m.t. uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi ef ekki eru lengur taldar forsendur fyrir sjávarútvegi.
  • Byggðakvóta er ætlað að efla atvinnulíf í sjávarbyggðum en ekki einungis rekstur tiltekinna fyrirtækja innan þeirra. Gæta þarf jafnræðis milli einstaklinga og fyrirtækja og tryggja að þau verðmæti sem felast í byggðakvóta skili sér til samfélagsins í heild.

Starfshópurinn setti fram sex tillögur um hvernig byggðkvóta skyldi ráðstafað, til dæmis að bjóða megi öðrum aðilum aðild að slíkum samningum, svo sem íbúasamtökum eða hverfisráðum, atvinnuþróunarfélögum, landshlutasamtökum, frjálsum félagasamtökum, fyrirtækjum eða samtökum þeirra.

Nú háttar svo til að ekki er lengur rekin fiskvinnsla á Tálknafirði og því liggur ekki beint við að tengja vinnsluskyldu við úthlutaðan byggðakvóta. Það er hins vegar aðeins stutt í næstu vinnslu og þangað sækja nokkrir íbúar sveitarfélagsins vinnu, taka þarf tillit til þeirra starfsöryggi.

Sveitarstjórn Tálknafjarðar er því talsverður vandi á höndum að útdeila þeim gæðum sem byggðkvóti óumdeilt er. Sveitarstjórnin hefur nú samþykkt að óska eftir að ríkisvaldið standi við þær tillögur sem starfshópurinn lagði til og leyfa byggðakvótanum að nýtast öðrum atvinnugreinum enda þykir ljóst að uppbygging á fiskvinnslu í sveitarfélaginu ekki fyrirhuguð.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps er umhugað um bæði yngri og eldri borgara sveitarfélagsins og sýnir það með lækkun leikskólagjalda frá síðustu áramótum og að gera nú kröfu um að þeir sem fá úthlutaðan byggðakvóta greiði 20 kr. af hverju kílói af úthlutuðum byggðakvóta í sjóð til undirbúnings á  byggingu dvalarheimilis á Tálknafirði.

Að öðru leyti eru óbreyttar óskir um breytingar á reglum um byggðakvóta, 30% verði skipt jafnt milli umsækjenda og 70% hlutfallslega. Löndunarskylda verður í Tálknafjarðarhöfn og vinnsluskylda ef ekki fæst samþykki fyrir framlagi til byggingar dvalarheimilis.

Bryndís Sigurðardóttir

sveitarstjóri

Auglýsing

Yfirlýsing er varðar Une Misère.

Une Misère.

Nú fyrir skemmstu skrifaði hljómsveitin Une Misère, sem inniheldur Vestfirðinginn Benjamín Bent Árnason frá Vöðlum í Önundarfirði, undir samning við útgáfufyrirtækið Nuclear Blast sem er eitt það stærsta innan þungarokksstefnunnar,.

Þetta markar upphafið á samstarfi sem hefur verið unnið að í rúm tvö ár en fyrir hljómsveitina hefur hugsunin alltaf verið: „Heimurinn eða ekkert“.

Í fréttatilkynningu segir að „þessar fréttir ekki að koma almenningi á óvart miðað við það umtal af kröftugri sviðsframkomu og öflugum skilaboðum sem hljómsveitin hefur að flytja gagnvart geðsjúkdómum, fíknivandamálum og hvernig tekið er á þeim í dag.

Nuclear Blast barst orð af hljómsveitinni og útgáfan áttaði sig strax á að þetta væri eitthvað sem hana langaði að hýsa.“

Meðlimir Une Misère eru að sjálfsögðu yfir sig hrifnir af gangi mála og eru virkilega spenntir að fá þetta tækifæri til að komast nær markmiði sínu.

Aðspurðir tala þeir um að áður en hljómsveitin var stofnuð þótti þeim ansi fjarstæðukennt að eitthvað eins og þetta myndi í rauninni gerast – að þetta stór draumur myndi í alvöru rætast.

Nuclear Blast hefur hýst og hýsir mörg af allra stærstu nöfnum þungarokks heimsins í dag en þar má nefna Slayer, Meshuggah og Behemoth. Það að vera nefndir á nafn í sömu andrá er að sjálfsögðu mikill heiður og þetta er ekki eitthvað sem drenginir í Une Misère segjast ætla láta fara til spillis.

Af gefnu tilefni var ákveðið að gefa út myndband við nýtt lag.

Damages fjallar um það að vera staddur á brúninni og það er engin undankomuleið í sjónmáli. Það fjallar um það að finna ekki fyrir neinu öðru en öllu því versta sem maðurinn getur ímyndað sér. Damages fjallar um þunglyndi, kvíða og fíkn því eins og er þá munu geðsjúkdómar og fíkn alltaf vera til staðar, þetta er ekki læknanlegt ástand. Hinsvegar er það meðhöndlanlegt – með hjálp.

Við hvetjum alla sem eiga erfitt eða eru að glíma við sjálfan sig að leita sér hjálpar. Tala við einhvern. Það er alltaf einhver sem er til í að hlusta.

Lagið er tileinkað Bjarna Jóhannesi Ólafssyni, góðum vini sem yfirgaf þennan heim alltof snemma.

Mynd; Amy Haslehurst.
Myndbandið á Youtube; https://www.youtube.com/watch?v=V6gSfs8_iuE

Auglýsing

Einungis tveir af tíu með endurskin

Á dögunum gerði VÍS könnun á endurskinsmerkjanotkun hjá tveimur ólíkum hópum. Annars vegar í unglingadeild í grunnskóla og hinsvegar á vinnustað. Unglingarnir stóðu sig aðeins betur en þeir fullorðnu og munaði þar mestu um endurskin á töskum.

76% unglinganna voru ekki með neitt endurskin en það hlutfall var öllu verra hjá þeim fullorðnu eða 86% en samanlagt er þetta hlutfall 79%. Aðrar niðurstöður voru:

  • Endurskin var á töskum 8% unglinga en 1% hjá þeim fullorðnu.
  • 6% unglinga voru með hangandi endurskin en 5% fullorðinna
  • Yfirhafnir unglinga voru með endurskini frá framleiðanda í 9% tilfella en 6% fullorðinna
  • Endurskin á skóm og endurskin á fleiri en einum stað var frá 0% til 1% hjá báðum hópum

Góður sýnileiki er gríðarlega mikilvægur fyrir alla vegfarendur. Með endurskini sér ökumaður gangandi og hlaupandi einstaklinga allt að fimm sinnum fyrr. Sá aukatími sem ökumanni gefst til að koma í veg fyrir slys er gríðarlega mikilvægur. Nú í dimmasta skammdeginu er mikilvægt að allir hugi að sýnileika sínum, jafnt börn sem fullorðnir, en úrval endurskins er mikið og ætti ekki að stoppa neinn. Best er þó að velja ávallt fatnað sem er með endurskini þegar hann er keyptur því þá er ekki hætta á að endurskinið gleymist eða týnist þó vissulega sé hætta á að það dofni með árunum.

fréttatilkynning frá VÍS.

Auglýsing

Ingimar svarar Eiríki Jónssyni

Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps hefur svarað spurningum Eiríks Jónssonar sem birtar vour í gær á bb.is. Svörin eru eftirfarandi. Spurningarnar eru birtar á undan hverju svari:

1. Hefur sveitarstjórn leitað sér lögfræðilegrar ráðgjafar/álits varðandi fjárhagslega ábyrgð sveitarfélagsins ef til þess kemur að leiðin sem hún velur reynist dýrari en sú leið sem vegagerðin vill fara?

Svar:  Við teljum okkur ekki þurfa lögfræði aðstoð varðandi kostnað sem fellur á sveitarfélagið. Reykhólasveitarvegur er á ábyrgð vegagerðarinnar, það er á ábyrgð vegagerðarinnar að vegir séu samkvæmt þeirra staðli. Það er Reykhólasveitarvegur ekki, hann féll á umferðaröryggismati Vegagerðarinnar. Vegagerðin er því skyldug til að uppfæra hann, sama hvaða leið er valin. Þar er því ekki um aukakostnað að ræða.

2. Hver er lögmaður/lögmannsstofa sveitarfélagsins?

Svar: Við höfum engan einn lögmann enda lítið sveitarfélag. En við höfum skipt við lögmannsstofuna Pacta sem sér t.d um persónuverndarmál hjá okkur.

3. Hefur sveitarfélagið haft eitthvað samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga (lögfræðisvið) varðandi þetta mál?

Svar:  Við erum yfirleitt í sambandi við fjölda sérfræðinga með öll mál, sérfræðingar sambands ísl sveitafélaga eru þar engin undantekning.

4. Hvaða verkfræði/jarðfræði/veðurfarsrannsóknir liggja að baki skýrslu þeirri sem notuð er sem rök fyrir svokallaðri R leið?

Svar: Flest gögn sem unnið hefur verið eftir koma frá Vegagerðinni. Það er því eðlilegast að leita þangað eftir gögnum.

5. Er sveitarfelagið tilbúið að standa straum af þeim aukakosnaði sem kann að hljótast af verði svokölluð R leið fyrir valinu og ákveðið verði að krefja sveitarfélagið um greiðslu lögum samkvæmt?

Svar: Vísa í svar 1.

6. Þar sem ljóst er að R leið er hvorki á áætlun Vegagerðarinnarar né þá heldur fjármögnuð spyr ég. Munu sveitarstjórnarmenn og sveitarstjóri axla persónulega ábyrgð fari svo að vegalagning vestur á firði lendi á ís af tæknilegum og/eða fjármálalegum völdum, velji þeir R leið?

Svar: Það er þegar búið að gera ráð fyrir fé í samgöngubætur á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er ekkert annað en kúgun á okkur hér í Reykhólahrepp að setja málið þannig upp að aðeins ein leið sé fjármögnuð aðrar ekki. Það er ábyrgðarhluti að ríkisrekin þjónustustofnun skuli hóta og reyna að kúga Sveitarfélag til þess að fara eftir þeirra vilja. Þetta gerir vegagerðin þrátt fyrir að hafa verið marg rekin heim með tillögu um vegagerð í Teigskóg.

Auglýsing

Gengur illa með flug hjá Örnum

Aðeins eitt flug hefur verið á Gjögur sem af er janúarmánuði, en það var þriðjudaginn fjórða, þriðjudaginn áttunda var flugi aflýst vegna vélabilunar, og ekkert reynt seinna um daginn að fljúga, einnig var aflýst flugi á föstudaginn ellefta, engin ástæða gefin upp. Nú í dag þriðjudaginn fimmtánda var aflýst flugi vegna veðurs, sem eðlilegt var.

Engin póstur hefur því borist í eina og hálfa viku, búið að fella þrjár ferðir niður. Ef flogið verður næstkomandi föstudag átjánda, mun því hálfsmánaðar póstur koma. Þótt fámennt sé nú í Árneshreppi þurfa margir að senda frá sér áríðandi póst sem ekki er hægt að senda í tölvupósti, og fá póst og pakka. Þetta er slæmt mál þegar flugfélagið Ernir fljúga aldrei daginn eftir þegar flugfært er, aðeins reynt á föstum áætlunardögum.

Frá þessu er skýrt á vefnum litli Hjalli í Árneshreppi.

Auglýsing

Tálknafjörður: sveitarstjórnarmenn vanhæfir í byggðakvótareglum

Á fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðar í síðustu viku var tekið fyrir úthlutun byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár 2018/19. Samþykkt var að halda sérstakur sveitarstjórnarfund um reglur til byggðakvóta þar sem svo margir aðalmenn í sveitarstjórn eru vanhæfir.

Verður fundurinn haldinn í dag kl 18. Verður fróðlegt að fylgjast með því hverjir munu að lokum taka ákvörðun um reglurnar sem nota á við úthlutun byggðakvótans.

Auglýsing

Nýjustu fréttir