Fimmtudagur 15. maí 2025
Heim Blogg Síða 1829

Sjötti ættliðurinn mætti í klippingu hjá Villa Valla

Villi Valli og fjórir ættliðir.

Í fyrradag  fór sonarsonur Heimis Tryggvasonar á Ísafirði og nafni hans, Heimir Snær í klippingu til Villa Valla. Þar með varð hann 6. ættliðurinn í beinan karllegg sem Villi Valli klippir. Villi Valli byrjaði að klippa árið 1950.

Heimir segir svo frá á facebook síðu sinni:
Þeir eru:
Langafi minn,hann Guðjón Kristjánsson (f.1880- d.1954), afi minn Guðmundur Guðjónsson (f.1910- d.1984), faðir minn Tryggvi Guðmundsson (f.1940-), Heimir Tryggvason (1963-), sonur minn Magnús Þór Heimisson (1984-) og svo sonarsonur minn hann Heimir Snær (f.2017-).

Bæjarins besta telur að hér sé um heimsmet að ræða, að einn og sami rakarinn hafi hendur í hári sex ættliða!

Villi Valli og Tryggvi Guðmundsson

Auglýsing

Vísindaportið – í hádeginu

Hæfni fyrirtækja og samfélaga til að standast samkeppni mun í æ ríkara mæli ráðast af því hvort þeim takist að skapa umhverfi sem ýtir undir fjölbreytni og laðar að sér ólíkt fólk með ólík viðhorf. Kostir slíks umhverfis eru eftirsóknarverðir og ótvíræðir en því fylgja líka áskoranir sem ber að taka alvarlega. Í erindi sínu deilir Guðmundur Gunnarsson gestur í Vísindaporti 25. janúar reynslu sinni af því að starfa í alþjóðlegu umhverfi með fólki af ólíkum uppruna.

Guðmundur Gunnarsson er bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Hann er 42 ára, fæddur á Ísafirði en uppalinn í Bolungarvík. Hann er með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum og B.A. próf í fjölmiðlafræði. Guðmundur hefur á undanförnum árum gegnt stöðu framkvæmdastjóra AFS á Íslandi, stýrt alþjóðasviði 66°NORÐUR og unnið sem frétta- og dagskrárgerðarmaður á RÚV. Guðmundur hefur auk þess búið og starfað í þremur löndum utan Íslands.

Vísindaportið er frá kl 12:10 til kl 13 í dag í kaffistofu Háskólasetursins.

Auglýsing

G. Hans Þórðarson: Vildi fjárfesta fyrir vestan

G. Hans þórðarson hefur vakið athygli í Bolungavík fyrir framtakssemi. Hann keypti verslunar- og skrifstofuhúsnæði Einars Guðfinnssonar hf við Aðalstræti og hefur unnið að því að breyta skrifstofuhæðunum tveimur í íbúðir. Þegar er lokið við þrjár íbúðir á annarri hæðinni og þær eru komnar í útleigu. Nú er unnið að því að gera 3-4 leiguíbúðir á þriðju hæðinni. Hans segir að til skoðunar sé að byggja hæð ofan á sem yrði fjórða hæðin og þar yrðu tvær íbúðir. Hann segir að hann vilji frekar koma húsnæðinu í notkun og horfa til lengri tíma en freista þess að taka út skjótfenginn gróða.

Þetta er um 100 milljóna króna fjárfesting, segir Hans. Ég er ekki að hugsa um að hagnast og vil frekar leigja á því verði sem leigumarkaðurinn fyrir vestan ber og geta boðið leigjendum öruggan leigurétt. Eitt af því sem Hans hefur til athugunar er að koma á fót óhagnaðardrifnu leigufélagi um þessar leiguíbúðir.

En af hverju fjárfesta fyrir vestan?

„Ég ætlaði alltaf að fjárfesta fyrir vestan og þetta atvikaðist svona. Það er fallegt fyrir vestan. Fjöllin og fegurðin“ segir G. Hans Þórðarson að lokum í stuttu símtali.

G. Hans Þórðarson.

 

Auglýsing

15,5% íbúa á Vesfjörðum eru erlendir ríkisborgarar

Mynd: Þjóðskrá Ísalnds.

Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman fjölda erlendra ríkisborgara sem eru búsettir hér á landi eftir sveitarfélögum. Tölurnar miðast við 1. desember 2018.
Hlutfall erlendra ríkisborgara er misjafnt milli sveitarfélaga eða frá rúmum 40% niður í engan skráðan.

Þegar horft er til landshluta þá er hæsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang á Suðurnesjum, eða 22,3% og Vestfirðir koma næst með 15,5%. Alls voru 1.096 íbúar með erlent ríkisfang af 7.059 íbúum á Vestfjörðum. Lægsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang er á Norðurlandi vestra eða 6,8%.

Súðavíkurhreppur er með hæsta hlutfallið á Vestfjörðum 25,6%. Það  er fjórða hæsta hlutfallið á landinu.  Næst er Bolungavík með 19,8%, þá Tálknafjörður 19,3% og Vesturbyggð 16,8%.

Mýrdalshreppur er með hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara en alls eru 40% skráðra íbúa í Mýrdalshreppi með erlent ríkisfang eða 280 íbúar hreppsins af 687. Næst hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara er í Skaftárhreppi eða 28,3% og Bláskógabyggð með 25,7%. Þess má geta að lægsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang er í Árneshreppi en enginn íbúi sem er með skráða búsetu í hreppnum er með erlent ríkisfang.

Bolungarvíkurkaupstaður 948 188 19,8%
Ísafjarðarbær 3.807 583 15,3%
Reykhólahreppur 256 11 4,3%
Tálknafjarðarhreppur 259 50 19,3%
Vesturbyggð 996 167 16,8%
Súðavíkurhreppur 199 51 25,6%
Árneshreppur 40 0 0,0%
Kaldrananeshreppur 103 14 13,6%
Strandabyggð 451 32 7,1%
Vestfirðir 7.059 1.096 15,5%

 

Auglýsing

Þingeyrarakademían: Húsnæði með sál. Eru þetta ekki nógu flottar höfuðstöðvar?

Húsnæði með sál. Eru þetta ekki nógu flottar höfuðstöðvar?

Rétt fyrir aldamótin 1900 reisti Landsbankinn sér glæsihýsi á norðvesturhorni Austurstrætis og Pósthússtrætis og hafa höfuðstöðvarnar verið þar síðan. Landsbankahúsið þótti „fyllilega á borð við slíkar byggingar í stórborgum“ eins og sagt var. En nú á að fara að byggja nýjar höfuðstöðvar banka allra landsmanna. Áætlaður kostnaður 9 milljarðar. Raunkostnaður að viðbættri Pí-reglunni sennilega 15-20 milljarðar ef að líkum lætur.

Og auðvitað á þessi glæsibygging að vera í miðbæ Reykjavíkur ofan á allt annað sem þangað er búið að troða af steinsteypu, járni og gleri. Nokkra metra frá gamla, fallega Landsbankanum með sögu sína. Og bílakjallarar þar undir sem munu líklega fyllast af sjó í fyllingu tímans. Er eitthvert vit í þessu?

Þingeyrar akademían bendir á, að Englandsbanki, Bank of England, er í eldgamalli virðulegri byggingu með sögu, í fjármálahverfinu í London. Engum heilvita manni dettur í hug að flytja höfuðstöðvar þess banka. Sama er að segja um margar slíkar stofnanir vítt og breytt um heiminn. Og til hvers nýjar höfuðstöðvar þegar allt bankakerfið er að verða rafrænt? Það skiptir engu máli hvar tölvurnar eru staðsettar. Er þetta kannski bara eitt snobberíið?

Og meðal annarra orða: Er ekki nóg af lausum herbergjum í Seðlabankanum sem Landsbankinn okkar getur fengið lánuð ef nauðsyn krefur?

Þingeyrarakademían að störfum. Ljósm. Haukur Sigurðsson.
Auglýsing

Vilja friða Ófeigsfjarðarheiði

Snæbjörn Guðnundsson, stjórnarmaður í ÓFEIG náttúruvernd.

Ný samtök sem nefnast ÓFEIG náttúrurvernd létu gera fyrir sig viðamikla skýrslu um áhrifin af friðun heiðanna við Drangajökul og kynntu hana fyrir nokkrum dögum.  Sérstaklega var tekið fram að friðun heiðarinnar og Hvalárvirkjun færi ekki saman. Fer ekki á milli mála að samtökin leggjast gegn Hvalárvirkjun.

Snæbjörn Guðmundsson er einn þriggja stjórnarmanna í samtökunum og segir hann að markmið þeirra sé friðun Ófeigsfjarðarheiðar. Samtökin eru opin  öllum.

Samkvæmt gögnum Ríkisskattstjóra voru samtökin ÓFEIG náttúruvernd tilkynnt 24. október 2018 og eru lög samtakanna dagsett sama dag.

Formaður er Sif Konráðsdóttir og aðrir í stjórn eru Snæbjörn og Kristín Ómarsdóttir.

Í lögunum segir að markmið félagsins sé að standa vörð um óbyggð víðerni, fossa og stöðuvötn á Ófeigsfjarðarheiði á Stöndum og nágrenni til framtíðar.

Verði félaginu slitið renna eignir þess að jöfnu til Landverndar og Náttúrusamtaka Íslands.

Snæbjörn Guðmundsson var formaður Landverndar á árinu 2017. Sif Konráðsdóttir var lögfræðingur Landverndar þar til hún varð aðstoðarmaður Umhverfisráðherra  Guðmundar Inga Guðbrandssonar.  Kristín Ómarsdóttir, er sú sama Kristín Ómarsdóttir sem  færði lögheimili sitt að Dröngum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og var svo tekin af kjörskrá. Varamenn í stjórn eru Guðmundur Hörður Guðmundsson, sem var formaður Landverndar 2011-2015 og Lára Ingólfsdóttir, sem flutti lögheimili sitt frá Reykjavík  að Seljanesi í Árneshreppi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og Þjóðskrá tók svo af kjörskrá.

Snæbjörn kvaðst aðspurður ekki geta svarað til um það hvað skýrslan hefði kostað en taldi víst að hún væri fjármögnuð með frjálsum framlögum einstaklinga.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta gæti kostnaðurinn við skýrsluna verið 2 – 3 milljónir króna.

 

Uppfært 17:47.

 

Auglýsing

Landsnet: heildarkostnaður 700 milljónir króna

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingarfulltrúi Landsnets.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets segir að heildarkostnaðurinn við jarðstrenginn um Dýrafjarðargöng og tenging hans sé um 700 milljónir króna. Tengingarkostnaðurinn einn og sér er um 410 milljónir króna.

Svar hennar við fyrirspurn bb.is um það hvers vegna strengurinn verði ekki tengdur strax og tekinn í notkun heldur beðið allt að 5 ár er svohljóðandi:

„það hefur áður komið fram að lagning strengsins í Dýrafjarðagöngin núna er eingöngu til komin vegna framkvæmda vegagerðarinnar við göngin, en ekki vegna forgangsröðunar Landsnets á verkefnum í svæðisbundna flutningskerfinu á Vestfjörðum. “, þ.e. við notum tækifærið til að samnýta framkvæmdir vegagerðarinnar, en þó með skynsamlega meðferð fjármuna í huga.  Þetta er ekki einsdæmi í raforkukerfinu, t.d var lagður strengur í Fáskrúðsfjarðargöng og rör í Norðfjarðargöng án þess að þarna hafi verið tengt strax.

Með tilkomu varastöðvarinnar í Bolungarvík batnaði öryggi mikið á norðanverðum Vestfjörðum. Reynslan af vélinni hefur verið mjög góð. Þessi staða leiði til þess að Landsnet er að endurmeta forgangsröðun framkvæmdanna á Vestfjörðum og ráðast fyrst í framkvæmdir sem skila orkunotendum fyrr aðgang að öruggari rafmagni. Að tengja strenginn strax krefst verulegra fjármuna til viðbótar við strenginn sjálfann. Meta þar hvort þeim fjármunum er betur varið í aðrar framkvæmdir á svæðinu svo sem að hringtenging á sunnanverðum Vestfjörðum. Íbúarnir á suðursvæðinu eru háðir einni tengingu frá Mjólkárvirkjun sem er bilanagjörn og varastöðvar þar orðnar gamlar.“

Auglýsing

Vestri mætir toppliði Þórs

Á morgun, föstudaginn 25. janúar, mætir Vestri liði Þórs frá Akureyri í 1. deild karla hér heima á Jakanum. Strax að leik loknum fer fram leikur stúlknaflokks Vestra gegn sameiginlegu liði Fjölnis, ÍR og Skallagríms.

Þórsarar verma efsta sæti deildarinnar og hafa aðeins tapað einum leik í vetur en Vestramenn sem sitja í 5. sæti eru staðráðnir í að stöðva sigurgöngu Þórsara á Jakanum.

Nú þurfa strákarnir á stuðningi áhorfenda að halda! Við hvetjum alla til að mæta á Jakann.

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Jakinn-TV að vanda.

Því miður verða grillmeistarar Körfuknattleiksdeildar Vestra í fríi að þessu sinni en sjoppa Barna- og unglingaráðs verður á sínum stað með góðgæti.

Áfram Vestri!

Auglýsing

Bergþór tekur sæti á alþingi á ný

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi tekur sæti aftur á Alþingi í dag. Hann segist snúa aftur til starfa fyrr en hann hugði  til þess að verjast spjótalögum sem hafi komið fram síðustu daga.

Bergþór Ólason, alþm.

Hann hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Í kjölfar óvarlegra orða minna, ólögmætrar upptöku á þeim, fjölmiðlaumfjöllunar og vandlætingar í samfélaginu tók ég þá ákvörðun að taka mér leyfi frá þingstörfum , íhuga stöðu mína og hvernig ég gæti safnað vopnum mínum, endurheimt traust kjósenda og haldið áfram þeim störfum sem ég var kjörinn til.

Endurmat af þessu tagi þarf sinn tíma og hann ætlaði ég að taka mér. Í ljósi þeirra spjóta sem á mér stóðu strax á fyrstu dögum Alþingis, eftir að það kom saman á nýju ári, tel ég hins vegar óhjákvæmilegt að flýta för minni og taka mér stöðu þar sem ég get í senn varist ágjöfinni og haldið áfram að sinna þeim verkefnum sem mér hefur verið trúað fyrir.

Mikilvægt er að störf Alþingis komist í eðlilegan farveg sem allra fyrst í stað pólitískra hjaðningavíga enda þótt sumum þyki sóknarfæri á þeim vettvangi. Ég mun leggja mitt af mörkum til þess að þingstörfin verði málefnaleg en ekki persónuleg á vikunum og mánuðunum sem framundan eru. Vonandi er að aðrir muni leggja sig fram um slíkt hið sama.“

Þá hefur Gunnar Bragi Sveinsson, Miðflokki, fyrrverandi þingmaður kjördæmisins en nú þingmaður Suðvesturkjördæmis,  einnig tilkynnt að hann taki sæti á Alþingi að nýju.

Gunnar Bragi Sveisson, alþm.

Tilkynning hans er eftirfarandi:

Í kjölfar óviðeigandi og særandi orða og ólögmætrar upptöku á þeim þá tók ég þá ákvörðun að taka mér launalaust leyfi frá þingstörfum eftir að hlerunarmálið umtalaða komst í hámæli. Ég vildi skoða hug minn, safna kröftum og ræða síðan við bakland mitt. Ég iðrast og hef beðist fyrirgefningar á orðum mínum og geri það enn á ný.

Ég hef leitað ráðgjafar og um leið notið mikils skilnings og stuðnings ættingja, vina og félaga innan flokks og utan. Þakka ég þeim hvatninguna og traustið.

Miðflokkurinn gaf mér það svigrúm sem ég óskaði eftir og hvorki hvatti mig né latti til að flýta endurkomu minni. Vel má skilja það hlutleysi sem vísbendingu um að hvorki ég né aðrir væru ómissandi fyrir flokkinn og undir það tek ég heilshugar. Ég var á hinn bóginn kosinn til starfa á Alþingi af fjölda fólks og gagnvart því ber ég ríkar skyldur. Þær vildi ég að sjálfsögðu rækja á nýjan leik í fyllingu tímans. Þakka ég þeim fjölmörgu stuðningsmönnum sem hafa sett sig í samband við mig og minnt mig á þessar skyldur mínar og hvatt mig til starfa.

Stundunum eru ákvarðanir nánast teknar fyrir mann. Fremur óvænt – en samt ekki – blasir svarið við því hvenær rétt sé að snúa til baka. Fyrstu dagar þingfunda á nýju ári, og framganga forseta Alþingis að undanförnu, er með þeim hætti að annað er óhjákvæmilegt en að nýta sér allan rétt til þess að vera inni á þeim leikvelli þar sem að mér er sótt og svara fyrir mig á þeim vettvangi en ekki utan hans. Þess vegna mæti ég á nýjan leik til starfa minna á Alþingi í dag.

Auglýsing

Bolungavík kaupir eignir ríkissjóðs

Gerður hefur verið samningur milli Bolungarvíkurkaupstaðar og Ríkissjóðs um kaup bæjarfélagsins á eignum ríkisins að Aðalstræti 10-12, Höfðastíg 15, Höfðastíg 17 og geymslu að Miðstræti 19.

Fram kemur í kaupsamningi að kaupin eru fjármögnuð með skuldabréfi frá seljanda. Söluverð er tæplega 35 milljónir króna.

Hið selda eru fjórar eignir:

  1. Hlutur ríkisins í Ráðhúsinu, Aðalstræti 10-12, skrifstofuhúsnæði  á tveimur hæðum ásamt bílskúr, samtals 344 fermetrar. Kaupverðið er 9 milljónir króna.
  2. Heilsugæslan að Höfðastíg 15, 361 fermetri, 85% eignarhlutur ríkisins.  Kaupverð er 10,2 milljónir króna.
  3. Höfðastígur 17, einbýlishús 211 fermetrar, 85% eignarhlutur ríkisins. Kaupverð er 14.450.000 króna.
  4. Miðstræti 19, geymsla, 85% eignarhlutur ríkisins. Kaupverð er 1,190.000 krónur.

Bæjarráð Bolungavíkur hefur ákveðið að selja Höfðastíg 17.

Auglýsing

Nýjustu fréttir