Óvissustigi almannavarna vegna covid-19 aflýst

Ríkislögreglustjóri í samráði við sóttvarnalækni hefur ákveðið að aflýsa óvissustig Almannavarna vegna heimsfaraldurs Covid-19. Almannavarnastig vegna Covid-19 hafa verið í gildi frá 27. janúar 2020 þegar óvissustigi var fyrst lýst yfir vegna nýrrar kórónuveiru. Fá þeim tíma hafa almannavarnastig ýmist verið á óvissu-, hættu- eða neyðarstigi allt eftir stöðu faraldursins.

Tilkynning um þetta var send út fyrir fáum mínútum frá Ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni..

Ekkert nýtt afbrigði Covid-19 hefur komið fram í rúmlega ár, íbúar á Íslandi eru vel bólusettir og innlögnum á sjúkrahús hefur fækkað. Þá hafa engar opinberar aðgerðir verið í gangi síðan í lok febrúar 2022.

Þrátt fyrir að almannavarnarstigi vegna Covid-19 sé nú aflýst hérlendis þá er sjúkdómurinn enn til staðar bæði hér og erlendis. Samantekt um stöðu Covid-19 á Íslandi í síðustu viku sýnir m.a. að í hverri viku er fólk á spítala með sjúkdóminn. Fyrir utan veikindi og afleiðingar þeirra þá voru 246 andlát skráð vegna Covid-19 frá 2020 til 2022. Í janúar 2023 voru 13 andlát en í febrúar hefur eitt andlát verið skráð (bráðabirgðatölur).

Covid-19 er enn yfirlýstur heimsfaraldur og enn talin ógn við lýðheilsu í heiminum samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Aðrir sjúkdómar sem slíku ástandi hefur verið lýst yfir fyrir frá árinu 2005 eru inflúensa H1N1 (svínaflensa), mænusótt, zíkaveira, ebóla (tvisvar) og apabóla. Þó dregið hafi úr aðgerðum vegna Covid-19 í flestum löndum er faraldurinn enn í gangi með tilheyrandi veikindum, andlátum og álagi á heilbrigðiskerfi. Vöktun, eftirlit og viðbrögð við Covid-19 verða áfram með sama hætti og vegna annarra smitsjúkdóma sem sóttvarnalæknir vaktar. Ef tilefni er til verður viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs virkjuð á ný á viðeigandi almannavarnastigi.

DEILA