Virkjanir: hvetja til hægagangs í skipulagsmálum

Hvalárvirkjun er stærsta virkjunin á Vestfjörðum sem er í undirbúningi.

Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga samþykkti á stjórnarfundi þann 17. febrúar síðastliðinn að hvetja öll sveitarfélög á landsbyggðinni sem hafa orkumannvirki í nærumhverfi sínu, eða eru með hugsanleg virkjanaáform í farvatninu til þess að staldra við í skipulagsmálum virkjana á meðan sanngjörn skipting auðlindarinnar verður fest í lög.

Í bókun stjórnarinnar segir að endurskoða þurfi hverjar heimildir sveitarfélaga eigi að vera til gjaldtöku og eða álagningar gjalda af virkjunum og raforkuframleiðslu og meta þurfi aðrar heimildir svo sem til skattaafslátta eða samfélagssjóða eða annað sem hefur efnahagsleg áhrif fyrir sveitarfélög.

Sanngjörn skipting arðsins

Þá segir einnig í bókuninni :

„Arður af nýtingu náttúruauðlinda til raforkuframleiðslu þarf að skiptast með sanngjörnum hætti milli þeirra sem eru hagaðilar við orkuvinnslu. Tryggja þarf með lögum að nærumhverfið þar sem orkan á uppsprettu sína, njóti efnahagslegs ávinnings sem mun styrkja byggð þar sem orkan verður til um allt land.
Það er sanngirnismál að orkuvinnslan skili sambærilegum tekjum í nærsamfélagið eins og öll önnur atvinnustarfssemi gerir. Einnig þarf að breyta raforkulögum til að tryggja að dreifikostnaður raforku sé sá sami í dreifbýli og þéttbýli.“

Stjórnin skipaði starfsnefnd sem hefur það hlutverk að vinna tillögur að breytingum hvað varðar tekjur sveitarfélaga af orkuframleiðslu, leggja fram drög að nýju lagaumhverfi um orkuvinnslu á Íslandi og koma á virku samtali allra hagaðila í samráði við stjórn samtaka orkusveitarfélaga. Formaður starfsnefndar er Haraldur Þór Jónssson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Landsvirkjun 45 milljarða króna hagnaður

Í gær voru birtar upplýsingar um ársuppgjör Landsvirkjunar. Í fréttatilkynningu segir að afkoma orkufyrirtækis þjóðarinnar hafi aldrei í 58 ára sögu þess verið betri. Hagnaður nam um 45 milljörðum króna og hækkaði um 72% frá árinu áður. „Þennan árangur má einkum rekja til skýrra rekstrarmarkmiða og endursamninga við flesta stærstu viðskiptavini á síðustu árum en þeir borga nú raforkuverð sem er sambærilegt við það sem borgað er í löndum sem við berum okkur helst saman við. Meðalverð til stórnotenda án flutnings var tæplega 43 dollarar á megavattstund og hefur aldrei verið hærra.“

Stjórn fyrirtækisins ætlar að leggja til 20 milljarða kr. arðgreiðslu í ríkissjóð, en á síðasta ári nam arðurinn 15 milljörðum kr.

DEILA