Raggagarður: forsetinn fékk sögu garðsins og gjafabréf

Sesselja Vilborg og Halldór á nýju hellulögninni. Myndir: Raggagardur.

Vilborg Arnarsdóttir og Halldór Már Þórisson stofnendur Raggagarðs hittu forseta Íslands í gær og fékk hann sögu Raggagarðs. Vilborg sagði að hann hefði veitt „móttöku fyrir hönd Vestfirðinga og landsmanna allra vinnuframlag okkar Dóra sem ég hef ekki hugmynd um hvað er mikið utan vinnudaga. Það fóru þó rúmlega 11 mánuðir af frí-timanum í kleinubaksturinn.“

„Hann fékk kynningu um Garðinn sem er opinber en fékk líka fullt af dæmisögum um það sem hefur ekki verið sagt frá opinberlega. Þessu stóra hjarta sem einstaklingar og fyrirtæki hafa gert fyrir garðinn og er einstakt og hefur næstum grætt mig. Saga garðins er svo einstök að það er efni í heimildarmynd.“

Í yfirliti um árið sem birtist á vefsíðu Raggagarðs kemur fram að stjórn Raggagarðs hafi unnið mikið starf í garðinum bæði á sumrin og eins séð um eftirlit á garðinum yfir veturinn. Þar segir. „Vinna Boggu og Dóra hefur einnig ekki verið skráð nema á vinnudögum garðsins. Dóri hefur sett saman nánast öll leiktækin saman sem eru í garðinum ásamt öðru. Á sínum tíma frá 2003 til 2013 voru bakaðar 3,9 tonn af kelinum til fjáröflunar. Það var búið að reikna það út að í það hefur farið 11 mánuðir í baksturinn á þessum árum allt í sjálfboðavinnu. Um er að ræða mörg ársverk einstaklings ef þetta væri allt tekið saman það sem skráð er. En það er ómetanleg vinna þar á baki.“

Síðasta sumar var sett upp 9 körfu frisbívöllur og eins var lengdur göngustígurinn á Boggutúni. Framkvæmt var fyrir 1.874.000 kr síðasta ári. Þar fyrir utan er rekstrarkosnaður upp á 493.000 kr yfir árið. Gestakomur í ár voru rúmlega 16 þúsund manns.

Vilborg Arnarsdóttir var í gær sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu  fyrir sjálfboðastörf við uppbyggingu fjölskyldugarðs í heimabyggð.

DEILA